Súkkulaðikökurnar hennar Hugrúnar ömmu

Þegar ég var polli þá var oft farið til ömmu á Austurbrautinni um jólin. Jólasveinninn límdur í eldhúsgluggann, litli jólabærinn með ljósunum inní og snjónum fyrir utan, jólatréð með englahárinu, allt saman ómissandi hluti af jólunum. Að sjálfsögðu fékk maður svo allskyns kökur og nammi. Súkkulaðikökurnar eru sérstaklega eftirminnilegar enda dásamlega góðar.

Mér skilst að uppskriftin komi úr bókinni “Bökun í heimahúsum” sem var fyrsta bók Helgu Sigurðardóttir og kom bókin út fyrst árið 1930.

Þetta þarftu:

300gr hveiti

150gr kókosmjöl

3/8 tsk hjartarsalt

300gr smjörlíki

4tsk kakó

2 Egg

Vanilla

Svona gerirðu:

Hveitinu og hjartarsaltinu sáldrað á borð og smjörlíkið mulið saman við. Þar í er blandað sykri, kókosmjöli og kakóinu. Vanilludroparnir látnir útí. Hnoðað saman með egginu, þar til það er jafnt. Rúllað í lengjur, sem eru skornar í jafna bita. Hver biti er hnoðaður í kúlu sem er svo dýft í sykur með söxuðum möndlum útí. Bakað við góðan og jafnan hita þar til kökurnar eru gegnum þurrar.

Jólaminningar

Þegar ég var lítill, þá var stór hluti af jólunum að kíkja heim til ömmu á Austurbraut.

Allt jólaskrautið sem búið var að setja upp, litli jólabærinn með sleðanum fyrir utan, ameríski jólasveinninn sem búið var að líma í eldhúsgluggann, litla jólatréð sem stóð uppá borð ofl ofl 🙂

Alltaf fékk maður smákökur hjá ömmu (og auðvitað allskonar annað gotterí) og það er ein ákveðin smákökutegund sem stendur uppúr. Ég fékk uppskriftina hjá Halldóru frænku og hérna er hún. Nú er bara að prófa!

Þetta þarftu:

200gr hveiti.
200gr smjörlíki.
100gr kókosmjöl.
125gr sykur.
3tsk kakó.
1/4tsk hjartarsalt (natrón)
1.egg og nokkrir vanilludropar

Svona gerirðu:

Þessi er hnoðuð og mamma gerði alltaf lengju og skar í jafn stóra bita sem hún mótaði í kúlur.
Ég gerði það ekki, heldur gerði jafn stórar kúlur jafn óðum og svo er þeim dýft ofan í mulin molasykur og möndlur áður en þær eru bakaðar. Ég bakaði mínar við 180 gráður og fylgdist bara með þeim.
Þegar þær eru aðeins farnar að springa og komin pínu annar litur þá ættu þær að vera orðnar góðar. Annars er bara að prófa sig áfram taka eina og smakka. 🙂
Þær eru smá tíma að bakast því kókosinn er smá stund að þorna.

Kókoskúlurnar hennar mömmu

Þegar ég var polli, þá bjó mamma stundum til kókoskúlur fyrir jólin. Í minningunni er þetta ein mesta dásemd sem fór inn fyrir mínar varir á þeim tíma 🙂 En hérna á eftir kemur uppskriftin:

Þetta þarftu:

3 dl haframjöl
2 dl sykur
2 msk kakó
örlítið af vanilludropum
1 msk púðursykur
2 msk vanillusykur
1 msk kalt kaffi
100 gr smjörlíki

Svona gerirðu:

sykur og smjörlíki brætt í potti
kælt og blandað saman við efnið
svo gerðar kúlur úr og velt upp úr kókosmjöli. Þær eiga að vera pínu blautar.

Settar í frysti og laumast í þegar enginn sér til 🙂

imagehandler