Ég var sko dugleg í dag!
allar myndir konar inn frá síðustu áramótum.. fjúh!
Kvef hefur einkennt síðustu daga svo um munar. Ég er búin að vera stíbbluð og með hálsbólgu og hita og hósta síðan á fimmtudaginn. Það er auðvitað mjög leiðinlegt og pirrandi að vera með svona kvefpestir en það sem pirrar mig mest er að ég er búin að missa af tveimur leikfimitímum vegna þessara skemmtilegheita. Er semsagt ekki búin að fara í leikfimi síðan á þriðjudaginn! Á örugglega eftir að verða búin á því eftir tímann á morgunn.. örugglega allt þol búið að hóstast úr mér. kemur í ljós..
Það er ekkert að frétta skemmtilegt frá atvinnuleitinni. Ekkert spennandi að gerast í því. Erfitt að vera þolinmóð. Verð að fara að setja eitthvað svakalegt trukk í þetta og opna hugann fyrir einhverju sem ég er kanski ekki að fatta að sé fyrir mig. Hugsa út fyrir kassann. hehehe eða eitthvað svoleiðis :o)
Á laugardaginn fór ég í brúðkaup Bríetar og Steins. Þau semsagt giftu sig í Skálholtskirkju í skínandi blíðu á laugardaginn og buðu svo til veislu í Víkingaskálanum í Ölfusi. Það var sko mjög gaman. Við fórum saman stelpurnar úr bekknum. Þekktum engan nema brúðhjónin, en náðum samt að skemmta okkur svakalega vel. Dýrindis kræsingar á borðum og ein besta súkkulaðikaka sem ég hef á ævinni smakkað og rjómi og berjasósa með henni! sleeeeeeeeeef hvað hún var geggjuð. Svo var dansað.. sem betur fer því ég er í átaki sko :o)
Jæja.. best að fara að þrífa sameigning. yeah!
þarftu: Kakan: 200gr hveiti, 1/2 tsk matarsódi, 50gr kakó, 275gr sykur, 175gr ósaltað smjör, 2 egg, 1msk vanniludropar, 80ml sýrður rjómi, 125ml sjóðandiheitt vatn, dökkir súkkulaðidropar og dökkt súkkulaði skorið í spæni. Súkkulaðisýróp: 1 teskeið kakó, 125ml vatn, 100gr sykur.
Svona gerirðu: Hitið ofninn í 170°C. Hyljið bökunarformið (21x11x7,5 cm svona svipað og jólakökuform) að innan með bökunarpappír. Hrærið saman smjör og sykur í skál svo eggjum saman við. Bætið þurrefnunum út í, hveiti, kakói og matarsóda og hrærið. Þar á eftir setijið þið sýrða rjóman út í og vanilludropana. Hrærið vel saman. Að síðustu er sjóðandi heitu vatninu hrært saman við og súkkulaðidropunum. Hellið deiginu svo í formið og bakið í miðjum ofni í svona klukkustund. Þegar um það bil 15 mínútur eru eftir af bökunartímanum er gott að byrja á sýrópinu. Hrærið saman í potti vatnið, sykurinn og kakóið og látið sjóða í um 5 mínútur eða þangað til að það er orðið að dökku súkkulaðisýrópi. Þegar bökunartíminn er liðinn takið þá klökuna út og stingið í hana á nokkrum stöðum með prjóni. Prjónninn á að koma nokkuð hreinn út, en það er samt í fínu lagi að kakan sé svolítið rök. Hellið sýrópinu svo yfir kökuna og reynið að láta hana drekka vel í sig í gegnum götin. Það er allt i lagi að eitthvað leki meðfram henni svo lengi sem hún drekki eitthvað í sig líka. Látið kökuna kólna alveg í forminu. Takið kökuna þá úr forminu og fjarlægið bökunarpappírinn. Komið forminu fyrir á diski eða platta. Skerið þá þykkt súkkulaði í spæni og stráið yfir kökuna og berið hana fram.
Að lokum: Þetta er algjörlega guðdómlega syndsamleg súkkilaðikaka. Ótrúlega góð og einföld í bakstri og rosalega mjúk. Ég sá hana í þætti hjá henni Nigellu og bara varð að smakka hana. Hún heitir þar Quadruple chockolate cake. Nigella hrærir kökuna bara saman þannig að hún setur allt draslið bara í matarvinnsluvél og hrærir. Ég myndi líka gera það ef ég ætti matarvinnsluvél því þá er þetta ennþá einfaldara. Vitaskuld borðar maður rjóma með þessari köku og drekkur helst sterkt og gott kaffi með. Kakan skilur eftir sig himneska súkkulaðivímu.. Ég á sko pottþétt eftir að baka þessa köku oft oft í framtíðinni.. Algjör uppáhalds kaka. HB
.. Langt síðan.
Síðan síðast hef ég meðal annars..:
..Breytt stofunni minni. Keyptum skrifborð og skrifborðslampa og bjuggum til smá skrifstofu handa mér. Hún er mjög fín. Ætluðum líka að kaupa hillur á vegginn en þær voru auðvitað ekki til. Þannig virkar IKEA.
..Farið í atvinnuviðtal vegna mjög spennandi starfs.. sem ég fékk svo ekki. Fúlt. En lífið heldur áfram.
..Byrjað aftur í leikfimi. Ég og Kolla skelltum okkur á 8 vikna námskeið í Hreyfingu og erum að skemmta okkur svakalega vel. Fer í leikfimi þrisvar í viku.. meira að segja á laugardagsmorgnum. Ýkt dugleg.
..Farið í tvo saumaklúbba. Alltaf svo gaman að hitta vinkonur sínar.
..Fengið húsgest. Mágkona mín hún Rakel kom og var hjá okkur í tvær nætur. Það var skemmtilegt að hitta hana eins og alltaf.
..Farið á tónleika ársina. Núna á laugardaginn voru loksins Nick Cave tónleikarnir sem við höfum verið að bíða eftir í allt sumar. Þeir voru hreint út sagt alveg stórkostlegir. Hef bara næstum aldrei farið á eins góða tónleika i livet.. að U2 tónleikunum tveimur undanskildum að sjálfsögðu. En vá, Þetta var ótrúlega gaman.
..Tekið þátt í Magna fárinu. Ég vakti auðvitað og kaus Magna eins og brjálæðingur, enda maðurinn algjörlega frábær í þessum þættum. Er samt glöð að þetta sé búið. Þetta hafði ekkert sérlega góð áhrif á svefnrútínuna.
..Horft á DaVinci Code. Loksins. Fannst hún ekki nærri eins góð og bókin. Var allan tímann að hugsa um hvað Ingvar hefði orðið miklu flottari Silas en þessi pretty boy sem lék hann. Tom Hanks var líka frekar asnalegur. Ágætis mynd samt..
..Líka klárað að horfa á Grey’s Anatomy seríu númer tvö. Æðislegir þættir. Þoli ekki McDreamy og að Meredith geti ekki sagt honum að hypja sig.. kommon maðurinn er giftur. Dr.Burke er hot.
kanski að þetta sparki í blogg-rassgatið á mér..
Þetta þarftu: 3 blaðlaukar, 3 sellery stilkar, 1 góður poki af gulrótum, 1 kúrbítur, 1 góður laukur, 3-4 hvítlauksgeirar, 3-4 kjúllabringur, 1 búnt kerfill, 1 búnt fersk steinselja, 1 pottur rjómi, salt og pipar, 2 kjúklingateningar, lárviðarlauf
Svona gerirðu: Byrjað er á því að sjúða kjúllann í potti með smá piparkornum, lárviðarlaufi og ólífuolíu. Þegar hann er tilbúinn þá skuluð þið hella vatninu af og láta kjúllann kólna. Saxið svo allt grænmetið. Síðan er málið að ná sér í stóran og góðan pott og svissa grænmetið allt saman (samt ekki steinseljuna og kerfilinn) þannig að það verði mjúkt. Laukurinn/blaðlaukurinn má allsekki verða brúnn þannig að keep the heat down. Þegar alltsaman er orðið vel mjúkt og gott er ca 1,5 lítra af vatni hellt útí pottinn, hendið líka teningunum útí og látið suðuna koma upp og svo malla í nokkrar mínútur. Hversu lengi fer bara eftir því hvað þið viljið hafa gulræturnar krönsí. Síðan er kjúllanum bætt út í og smakkað til með salti og pipar (fullt af pipar). Svo rétt áður en ykkur langar að borða gúmmelaðið þá skellið þið steinseljunni og kerflinum útí ásamt rjómanum. Passið bara að sjóða ekki rjómann.
Að lokum: Þessi uppskrift er frá snillingnum honum Þorgrími bróður mínum. þetta er sko belgískur matur eins og hann er eldaður í Gent þar sem snillingurinn býr í góðu yfirlæti. Ég smakkaði þetta fyrst í sumar þegar hann eldaði þetta handa okkur á Hraunhólnum. Þetta sló heldur betur í gegn hjá mér og Pésa og við eldum þetta oft. Það er líka hægt að nota heilan kjúkling í staðinn fyrir bringur. það er soldið meira moj því þá þarf að taka af honum skinnið og beinin þegar maður er búinn að sjóða hann. Mér finnst líka best að skera allt grænmetið í svona mjóar ræmur og tæta kjúklinginn niður eftir suðuna í staðinn fyrir að skera hann í bita.. en svona er ég nú skrítin. Svo nota ég líka alltaf matraeiðslurjóma en ekki venjulegan, til að passa línurnar. Allavega þá er þetta algjörlega æðislegur matur og alveg bráðhollur og bara mega gebba ógó þroskó mongó mikil snilld! Takk fyrir mig Toggi minn
Ég er komin heim.
aahhh.. helgin er búin að vera æðisleg.
Þá er bara að finna sér einhverja sniðuga vinnu !
Þetta þarftu: 4-5 vel þroskaða tómatar, 4 msk pestó (venjulegt grænt), skvettu af ólífuolíu (extra virgin, 1/2 dl rauðvín, 2 kjúklingabringur (skinn- og beinlausar) og 50-75g fetaost.
Svona gerirðu: Hitið ofnin í 200°C. saxið tómatana frekar smátt og setið þá í eldfast mót. Hrærið svo 1 msk af pestói, ólífuolíu og rauðvíninu saman við og saltið og piprið. Ýtið svo tómötunum út til hliðanna. Smyrjið kjúllann á báðum hliðum með afgangnum af pestóinu og setjið hann svo í miðjuna á fatinu. Fetaosturinn er svo mulinn yfir allt saman og rétturinn bakaður í ofni í svona 20mín eða þangað til að kjúklingurinn er steiktur í gegn.
Að lokum: Þetta er svaka góður kjúklingur og ótrúlega einfalt að elda hann. Uppskriftin er upprunalega fengin úr Gestgjafanum en í hvert skipti sem ég elda hann prófa ég eitthvað nýtt. Haf til dæmis bætt við ólífum og furuhnetum, líka papriku og bara allskonar. Þetta er sérlega góður réttur í rómantískan kvöldverð fyrir tvo því svo drekkur maður auðvitað afganginn af rauðvíninu með. Ef þið eruð í stuði þá er gott að borða nýbakað brauð með þessu og mæli ég þá auðvitað með Massa brauði Kollusætu