Við erum á leiðinni í matarboð til Ismars og Özru og við þurfum að taka með okkur desert. Mín snaraði þá í eitt stykki djöflatertu eins og ekkert væri 🙂
Þetta þarftu: Botnar: 280g púðursykur, 40g kakó, 250ml mjólk, 90g dökkt súkkulaði, 125g mjúkt smjör, 2 egg, aðskilin, 1tsk vanilludropar, 180g hveiti, 1tsk sódaduft. Súkkulaðihjúpur: 100g súkkulaði, 60g smjör, 2msk flórsykur. Vanillurjómi: 2 1/2dl rjómi, 1tsk vanilludropar eða 1msk vanillusykur.
Svona gerirðu: Botnar: Hitið ofninn í 160°C. Setjið 1/3 af púðursykrinum í pott ásamt kakóinu og mjólkinni. Hitið þetta við vægan hita þangað til kakóið er uppleyst. Takið pottinn af hitanum og bætið súkkulaðinu út í og hrærið þangað til það er bráðið. Kælið lítillega. Hrærið saman smjör og afganginn af púðursykrinum þangað til blandan er orðin létt og ljós. Bætið þá eggjarauðunum saman við, eina í einu. Setjið vanilludropana út í ásamt súkkulaðiblöndunni. Hrærið þetta vel saman. Blandið svo hveiti og sódadufti varlega saman við með sleikju. Stífþeytið eggjahvíturnar og hrærið þær svo varlega saman við. Smyrjið svo botninn á tveimur smelluformum eða klæðið þau með bökunarpappír. Hellið deiginu í formin og bakið í u.þ.b. 35-45 mínútur. Látið botnana kólna í formunum í 5 mín áður en þið hvolfið úr þeim á bökunarpappír. Kælið botnana vel. Súkkulaðihjúpur: Setjið súkkulaði og smjör í skál og bræðið yfir vatnsbaði. Hrærið rólega í og gætið þess vel að blandan hitni ekki of mikið. Bætið flórsykri út í og þeytið vel saman. Kælið þar til hjúpurinn hefur þykknað. Vanillurjómi: Þeytið saman rjómann, flórsykurinn og vanilludropana. Þessi vanillurjómi er svo settur á milli botnanna tveggja og súkkulaðihjúpirnn fer ofan á kökuna.
Að lokum: Þessi kaka er algjör killer! alveg svakalega góð! Uppskriftin er fengin úr nýja kökublaði gestgjafans og prýðir forsíðu blaðsins. Við notuðum 70% síríussúkkulaði þegar við gerðum þessa köku um síðustu helgi. Það er sagt í uppskriftinni að það se best að nota form sem eru um 20-22 cm í þvermál því þá verður kakan svona há og flott. Okkar form eru held ég 26 eða 28 cm en þrátt fyrir það var hún alveg massa flott. Ekki alveg jafn þykkur rjóminn á milli og hjúpurinn ofaná náði nú ekki að leka en hún var samt geggjað flott eins og þið sjáið nú á myndinni, miklu flottari en á forsíðunni á gestgjafanum finnst mér sko.. ha?