Þetta þarftu: 700-800gr þorskflök, roðflett (eða t.d. ýsa), pipar, salt, 1 sítróna, 1 msk olía, 1 msk smjör, 200gr risarækjur, nokkur basilíku blöð. Spænsk tómatsósa: 4 tómatar, vel þroskaðir, 1 rauður fræhreinsaður chili, 25gr afhýddar möndlur eða kasjúhnetur, 4 hvítlauksgeirar, 1 msk rauðvínsedik, 150ml vatn, 1 tsk grænmetiskraftur, 1 tsk paprikuduft, pipar, salt
Svona geririðu: Skerið fiskinn í stykki og leggið á disk. Kryddið með salti og pipar á báðum hliðum. Rífið börkinn af sítrónunni yfir, skerið svo sítrónuna í tvennt og kreistið safann úr öðrum helmingnum yfir fiskinn. Látið standa á meðan sósan er búin til. Sósan: Saxið tómata og chili gróft og setjið í matvinnsluvél ásamt möndulum, hvítlauk og ediki. Látið ganga þar til allt er orðið að mauki. Setjið þá í pott, bætið við vatni og grænmetiskrafti. Kryddið með paprikudufti, salti og pipar og látið malla við hægan hita í um 10 mínútur. Smakkið og bragðbætið eftir þörfum. Hitið olíu og smjör á pönnu og steikið fiskinn við góðan hita í um 2 mínútur á annari hliðinni, snúið honum svo við og steikið í um 1 mínútu á hinni hliðinni. Bætið þá rækjunum við og steikið þær þar til þær hafa breytt lit á báðum hliðum. Hellið tómatsósunni á pönnuna og látið malla þar til fiskurinn er rétt soðinn í gegn en alls ekki lengur. Rífið basilíku blöðin yfir og berið fram strax.
Að lokum: Algjör uppáhalds fiskur. Þetta er uppskrift úr einhverjum gestgjafa og ég smakkaði þetta auðvitað fyrst hjá pabba eins og svo margt annað sem mér finnst gott. Ótrúlega gott að drekka með þessu gott hvítvín eða jafnvel rauðvín og borða massa brauð kollusaetu með. Ég á ekki neina matvinnsluvél en saxa bara allt í sósuna smátt og það svínvirkar. Ég hef bæði notað soðnar og hráar risarækjur. Ef ég nota soðnar þá set ég þær útí í lokin og læt þær hitna aðeins í sósunni, steiki þær ekkert enda eru þær þegar soðnar Þetta er ótrúlega ferskur og sumarlegur réttur. Chilibragðið og sítrónan og krönsí möndlur eru alveg að smellpassa saman. Hrikalega gott! Á myndinni er ég einmitt að fara að gæða mér á þessum frábæra rétti á föstudaginn langa og að þessu sinni er cous cous með. HB