Þetta þarftu: 1 kg lambaframhryggjarsneiðar, helst nokkuð þykkar, nýmalaður pipar, salt, 1 msk olía, 25 gr smjör, 100 gr beikon, 1 laukur, saxaður smátt, 1-2 hvítlauksgeirar, 3-4 gulrætur, 1 rósmaríngrein, 1 dós (250 ml) tómatmauk (puré), 250 ml rauðvín, má vera óáfengt, vatn eftir þörfum, 500 gr kartöflur
Svona gerirðu: Ofninn hitaður í 160°C. Hver framhryggjarsneið skorin í 2-3 bita og þeir kryddaðir með pipar og salti. Olía og smjör hitað á pönnu og kjötið brúnað vel. Tekið af pönnunni og sett í stórt, eldfast mót. Beikonið skorið í bita, sett á pönnuna og steikt í 2-3 mínútur. Þá er lauk, hvítlauk, gulrótum og rósmaríni bætt á pönnuna og það látið krauma áfram í nokkrar mínútur. Tómatmauki og rauðvíni hrært saman við og síðan er öllu saman hellt yfir kjötið, þétt lok lagt yfir fatið eða álpappír breiddur vel yfir, og það sett í ofninn. Látið malla í um eina og hálfa klukkustund. Svolitlu vatni bætt við ef þarf en vökvinn á aldrei að fljóta yfir kjötið og sósan á að þykkna af sjálfu sér. Kartöflurnar afhýddar og skornar í bita. Fatið tekið úr ofninum, rósmaríngreinin veidd upp úr, kartöflunum dreift jafnt á milli kjötbitanna, fatið sett aftur í ofninn og látið malla í um 30-40 mín í viðbót, eða þar til kartöflurnar eru meyrar.
Að lokum: Þetta er algjörlega geeeeðveikur réttur, hefur ósjaldan verið eldaður og er hreinlega guðdómlegur með góðu rauðvíni, góðu brauði, við kertaljós á köldu vetrarkvöldi.