Category Archives: fiskur

Kjúklingur Jambalaya

Ég og Pési gæddum okkur á þessu um síðustu helgi og ég bara skora á ykkur að prófa!

Þetta þarftu: 4 kjúlingabringur skornar í munnbita, olía, 1 saxaður laukur, 4 hvítlauksrif, 1/2 – 1 saxaður og fræhreinsaður chilipipar, 2 1/2 dl hrísgrjón, 2 dl hvítvín (+ það sem drekka á með), 5 dl kjúklingasoð, 10 risarækju, 4 saxaðir tómatar – helst vel þroskaðir, söxuð steinselja, salt og nýmalaður pipar.

Svona gerirðu: Steikið kjúklingabitana í olíu og geymið svo. Steikið svo laukinn og hvítlaukinn í olíu þar til hann verður svona mjúkur og glær, bætið þá paprikunni og chiliinu útí og steikið áfram í smástund. Svo er hrísgrjónunum bætt útí líka og þau steikt í smá stund með hinu. Þá er hvítvíninu hellt útí, hrært og látið malla smá. Svo er kjúklingasoðinu líka hellt útí og lok sett á pottinn og látið sjóða þar til grjónin eru soðin. Þá er rækjunum bætt við (auðvitað er skelin tekin af fyrst) og þær látnar malla með þangað til þær verða bleikar. Það tekur sirka mínútu eða tvær. Að lokum er tómötunum og kjúklingnum hrært saman við og allt kryddað með salti og pipar og steinselju.

Að lokum: Þessi uppskrift, upphaflega úr gestgjafanum en þar aðeins öðruvísi, er upprunin frá Louisiana. Þar er algengt að blanda saman skelfiski og kjúklingakjöti. Þetta myndi flokkast undir creola matargerð. Þetta er bara best í heimi! Ótrúlega gott. Gott að borða nýbakað massabrauð kollu sætu með þessu og sötra hvítvínið. Þessi réttur er sko algjör uppáhalds

Fiskur í spænskri tómatsósu

Þetta þarftu: 700-800gr þorskflök, roðflett (eða t.d. ýsa), pipar, salt, 1 sítróna, 1 msk olía, 1 msk smjör, 200gr risarækjur, nokkur basilíku blöð. Spænsk tómatsósa: 4 tómatar, vel þroskaðir, 1 rauður fræhreinsaður chili, 25gr afhýddar möndlur eða kasjúhnetur, 4 hvítlauksgeirar, 1 msk rauðvínsedik, 150ml vatn, 1 tsk grænmetiskraftur, 1 tsk paprikuduft, pipar, salt

Svona geririðu: Skerið fiskinn í stykki og leggið á disk. Kryddið með salti og pipar á báðum hliðum. Rífið börkinn af sítrónunni yfir, skerið svo sítrónuna í tvennt og kreistið safann úr öðrum helmingnum yfir fiskinn. Látið standa á meðan sósan er búin til. Sósan: Saxið tómata og chili gróft og setjið í matvinnsluvél ásamt möndulum, hvítlauk og ediki. Látið ganga þar til allt er orðið að mauki. Setjið þá í pott, bætið við vatni og grænmetiskrafti. Kryddið með paprikudufti, salti og pipar og látið malla við hægan hita í um 10 mínútur. Smakkið og bragðbætið eftir þörfum. Hitið olíu og smjör á pönnu og steikið fiskinn við góðan hita í um 2 mínútur á annari hliðinni, snúið honum svo við og steikið í um 1 mínútu á hinni hliðinni. Bætið þá rækjunum við og steikið þær þar til þær hafa breytt lit á báðum hliðum. Hellið tómatsósunni á pönnuna og látið malla þar til fiskurinn er rétt soðinn í gegn en alls ekki lengur. Rífið basilíku blöðin yfir og berið fram strax.

Kokkurinn sestur til borðs 🙂

Að lokum: Algjör uppáhalds fiskur. Þetta er uppskrift úr einhverjum gestgjafa og ég smakkaði þetta auðvitað fyrst hjá pabba eins og svo margt annað sem mér finnst gott. Ótrúlega gott að drekka með þessu gott hvítvín eða jafnvel rauðvín og borða massa brauð kollusaetu með. Ég á ekki neina matvinnsluvél en saxa bara allt í sósuna smátt og það svínvirkar. Ég hef bæði notað soðnar og hráar risarækjur. Ef ég nota soðnar þá set ég þær útí í lokin og læt þær hitna aðeins í sósunni, steiki þær ekkert enda eru þær þegar soðnar ;-) Þetta er ótrúlega ferskur og sumarlegur réttur. Chilibragðið og sítrónan og krönsí möndlur eru alveg að smellpassa saman. Hrikalega gott! Á myndinni er ég einmitt að fara að gæða mér á þessum frábæra rétti á föstudaginn langa og að þessu sinni er cous cous með. HB

Fiskur í grænmetissósu

Þetta þarftu: 800gr fiskflök, 200gr sveppir, 1/2 dós kurlaður ananas í eigin safa, 1msk olía, 1 laukur, 1/2 blaðlaukur, 2 gulrætur, 1 græn paprika, 1 rauð paprika, 125gr smurostur (t.d. sveppa), 1 1/2dl léttmjólk, salt, pipar aða sítrónupipar, paprikuduft, karrí, fiskteningur (ef maður vill), hrísgrjón.

Svona gerirðu: Roð- og beinhreinsið fiskinn og sneiðið sveppina. Leggið fiskinn í eldfast mót og setjið ananasinn yfir hann og sveppina líka. Saxið og skerið grænmetið og léttsteikið á pönnu. Saltið og piprið. Bætið ostinum útí og bræðið hann. Hellið svo mjólkinni útí. kryddið svo með paprikudufti og karrýi og setjið teninginn útí ef ykkur finnst það vanta. Hellið svo sósunni yfir fiskinn og skellið þessu svo í ofninn á 200° og bakið í hálftíma. Á meðan þetta bakast þá er upplagt að sjóða grjón!

Að lokum: Þetta kom á óvart, bjóst ekki við því að þetta væri svona gott! Uppskriftin er fenginn úr bókinn Af bestu lyst nr1 og í henni stendur að í hverjum skammti (uppskriftin er fyrir 6) séu ekki nema 278 hitaeinigar! Næst þegar ég elda þetta þá ætla ég að prufa að hafa einhvernveginn öðruvísi grænmeti, pottþétt brokkolí. Mér fannst það eiginlega vanta. Svo held ég að það sé líka gott að hafa með þessu cous-cous. Ég ætla að prófa það næst. HB

Fiskur í tómatkryddsósu

Þetta þarftu: 600gr ýsuflök. Tómatkryddsósa: 1 græn paprika, 1 rauð paprika, 1 laukur, 1 dós niðursoðnir tómatar, 2og1/2 tsk þurrkað basil, 1/2 tsk tabaskó sósa, salt og pipar. Deig: 1og1/2 dl haframjöl, 1/2 dl heilhveiti, salt, pipar, 2 msk smjörlíki, 4 msk rifinn ostur (17%)

Svona gerirðu: Sósan: saxið paprikur og lauk, sjóðið saman tómata, paprikur, lauk, basil, og tabaskó sósu þar til sósan hefur þykknað (uþb 15-20 mín). Skerið fiskfökin í stór stykki og raðið þeim í ofnfast fat. Hellið svo sósunni yfir fiskinn. Deig: Blandið saman haframjöli, heilhveiti og saltogpipar. brytjið smjörlíkið saman við og blandið líka ostinum við. Stráðið þessu svo yfir fiskinn og það. Bakið við 175° í 20 mín.

Að lokum: Þetta er nýi uppáhalds maturinn minn. Vægast sagt frábær réttur. Ég hef aldrei eldað þetta sjálf, er svo heppin að eiga mann sem finnst gaman að elda góðan mat handa mér! Hann setur alltaf heila teskeið af tabaskói og það er akkúrat passlegt. Það er betra að hafa soldið kikk í þessu. Þetta er líka svaka holt segir bókin (Af bestu lyst), en uppskriftin er þaðan.. Með þessu höfum við borðað hrísgrjón, en erum að spá í að prófa kúskús einhverntíma, og jafnvel spaghetti. HB

Fiskréttur að hætti Lúlla Lauks

Gestakokkurinn er Tryggvi

Tryggvi Már í Suðurlandsferð vorið 1999

Þetta þarftu: Slatta af ýsu, lausa í roði og beinum, 1/2-1 lauk, 2 hvítlauksrif, túmat, rifinn ost, cajun krydd, ólívuolíu og eldfast mót. Borðist með hrísgrjónum og soya

Svona gerirðu: Skellir cajun kryddi á ýsuna bak og fyrir og lætur hana svo á botninn á mótinu.. Laukinn og hvítlaukinn í múlínexinn og í tætlur… sem dreifist yfir ýsuna. Svo er túmaturinn skorinn í skeiðar og lagður yfir … oggulítil ólífuolía yfir allt saman… og að lokum ostinum stráð yfir. heila klabbinu svo skellt í upphitaðann ofn á 175° í 10-15 mínútur og síðan er bara að gúffa í sig.

Að lokum: Lúmskt gott að sáldra steiktum lauk yfir þegar maður er búinn að fá sér á diskinn. Í indónesíu er t.d. steiktur laukur rosalega vinsæll með hrísgrjónum og eiginlega ómissandi eftir að maður kemst upp á lag með það. Hinsvegar er varhugavert að neyta mikið af þessum rétti fyrir mikilvæg mannamót… en hann virkar samt ágætlega við kvefi ;)

Enn að lokum: Þessi réttur er niðurstaða mikillar þróunarvinnu þar eð í fyrstu borðaði ég ekki hvítlauk og fannst ýsa vond, en Björt fannst laukur vondur… einhvernveginn þá kombinera hinsvegar öfgarnar svona hreint út sagt ágætlega saman :)
Kveðja frá Hollandi, Tryggvi Már gestakokkur

Fiskréttur sumarsins 2004

Þetta þarftu: 700gr ýsa, roðlaus og beinlaus, spínat, 1-2 græn epli eða jonagold, karrý, paprika, rækjur, rjómi, kúskús, kjúklingateningur, einhver grænmetisblanda (gott að nota einhverja wokblöndu eða bara saxa sjálf eitthvað niður)

Svona gerirðu: Hyljið botninn á álbakka með spínati og raðið fiskinum þar yfir. Kryddið fiskinn með karrý. Skerið svo eplið í báta og paprikuna i bita og dreifið yfir fiskinn, já og rækjunum líka. Hellið svo rjóma yfir alltsaman (samt ekki þannig að hann hylji alltsaman, bara svona temmilega mikið). Lokið svo álbakkanum með álpappír og skellið þessu á grillið þangað til fiskurinn er soðinn. Á meðan fiskurinn er á grillinu mýkið þá grænmetisblönduna í potti. Hellið svo vatni (250ml) yfir og setjið einn kjúklingatening útí. Setjið svo kúskús-ið útí (250gr) og hrærið og látið það drekka í sig vatnið. Borðið svo með fiskinum

Að lokum: Þetta er algjör snilld! Uppskriftin er sko upphaflega þannig að fiskurinn er grillaður í svona álpappírs böggum (einn skammtur í bagga) en mér (okkur pabba) finnst fínt að elda þetta svona í einum bakka og hafa kúskús með. Safinn/soðið af réttinum helst svo vel í og það er geggjað áð láta kúskúsið drekka í sig safann/soðið. Pabbi eldaði þetta svo oft þegar ég var fyrir austan sumarið 2004 og við bara fengum ekki nóg.. Einfalt, fjlótlegt og geggjað gott! HB

Fiskisúpa Miðjarðarhafsins

Girnileg súpa

Þetta þarftu: 400g fiskur, roðlaus og beinlaus, 250g hörpudiskur, 4 laukar, 3 hvítlauksrif, 400g sveppir, 2 msk olía, 3 tsk salt, 2tsk svartur pipar, 1msk karrí, 2tsk túrmerik, 1dós niðursoðnir tómatar, 1/2 lítri hvítvín (má nota kjúklingasoð), 1/2 lítri vatn, 3 lárviðarlauf, 1 dós kræklingur, 1 búnt steinselja.

Svona gerirðu: Saxið lauka og hvítlauk og skerið niður sveppi. Mýkið í olíu í 1-2 mínútur í stórum potti. Kryddið með salti, pipar, karrí og túrmeriki. Setjið tómata, hvítvín (eða soð), vatn og lárviðarlauf út í pottinn. Látið suðu koma upp og sjóðið í 3-4 mín. Skerið fiskinn í litla bita og setjið í súpuna ásamt frosnum hörpudiski. Sjóðið í 3-4 mínútur. Bætið kræklingnum útí og hitið að suðu. Saxið steinseljuna og stráið yir súpuna.

Pési bíður spenntur eftir að fá að smakka

Að lokum: Þó þetta heiti fiskisúpa er þetta sjúklega góð súpa. Ég hef eiginlega alltaf lúðu í henni og sleppi líka kræklingnum því mér finnst hann vondur og set yfirleitt humar í staðinn.. að sjálfsögðu! En það er alveg hægt að setja allskonar fiska í þetta.. að sjálfsögðu ber maður nýbakað brauð fram með svona súpu og mæli ég með massa brauði kollusætu!! Ég fékk þessa uppskrift upphaflega úr bókinni Af bestu lyst 2 og get sko sagt ykkur að þessi súpa er ógeðslega holl. Það stendur sko í bókinni! HB