Category Archives: kjúklingur

Mílanó kjúklingur

Þetta þarftu: 600-700 gr kjúklingur, nýmalaður pipar, salt, 2 brauðsneiðar, 1 sítróna, 4 msk nýrifinn parmesanostur, 1 tsk þurrkað óreganó, 1 egg, ólífuolía, 50 gr smjör, 4-5 velþroskaðir tómatar skornir í bita.

Svona gerirðu: Leggðu bringurnar á bretti og legðu lófann á og skerðu hana í tvennt á þykktina. Leggðu yfir þær plast og berðu þær svolítið tildæmis með pönnu eða kökukefli aðeins til að þynna þær. Kryddaðu bringurnar með salti og pipar. Settu brauðið í matvinnsluvél ásamt rifnum berkinum af sitrónunni, parmesanostinum og óreganóinu og láttu ganga þar til komin er fín mylnsna. Sláðu eggið og velltu bringunum fyrst upp úr egginu svo uppúr mylsnunni. Hitaðu olíuna á stórri pönnu og steiktu bringurnar við meðalhita í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Taktu þær svo af pönnunni og haltu þeim heitum. Bættu smjörinu á pönnuna og síðan tómötunum og safanum úr sítrónunni og láttu krauma rösklega í 4-5 mínútur. Saltaðu og pipraðu eftir smekk. Skelltu svo bringunum í fat og heltu tómatgumsinu yfir.

Að lokum: Í uppskriftinni (sem er að finna í hinni stórskemmtilegu bókMaturinn hennar Nönnu eftir Nönnu Rögnvalds) er talað um að hafa kapers með í sósunni, 1 tsk. En ég hef alltaf sleppt því.. nenni ekki að eiga einhvern afgang af kapers sem ég nota aldrei. Með þessu hef ég svo haft kartöflumús bragðbætta með slatta af parmesan osti og sítrónusafa og salti og pipar.. og auðvitað smá smjöri. Næst er ég samt að hugsa um að gera svolítið meira af tómatgumsinu og sjóða spaghetti með.. og jafnvel setja smá ólífur (ragnar grímsson) í gumsið. Þetta er ótrúlega bragðgóður réttur, alveg mega mongó..

Kreólakjúklingur

Þetta þarftu: 1/2 dl hveiti, 2 msk sætt paprikuduft, saltogpipar, olía til steikingar, 1200gr kjúklingabitar, 2 msk smjör, 2 grænar eða rauðar paprikur, 1 stór laukur, 1 dl steinselja söxuð, 2 hvítlaukrif, 2 tsk karrý, 1/2 tsk múskat, 1 dós tómatar, 1 dl kjúklingasoð, 3/4 dl rúsínur dökkar eða ljósar, 1 dl ristaðar og saxaðar möndlur.

Svona gerirðu:  Hitið ofninn í 180°C. Blandið hveiti, paprikudufti, salti og pipar saman í poka og setjið svo kjúklingabitana ofan í pokann og hristið vel saman. Hitið olíu á pönnu og brúnið kjúklingabitana vel á báðum hliðum og raðið svo í eldfast mót. Setjið smjörið á pönnuna og steikið lauk og papriku við vægan hita svo það verði meyrt í sirka 5 mínútur. Setjið því næst hvítlaukinn og steinseljuna útí ásamt karrýi og múskati og blandið vel á pönnunni. Svo er tómtunum, kjúklingasoðinu og rúsínunum bætt við og látið malla í smá stund. Þessu er svo öllu hellt yfir kjúklinginn og skelllt inn í ofninn í 40-50 mínútur. Möndlurnar eru saxaðar og ristaðar á pönnu og dreift yfir kjúklinginn þegar hann er kominn út úr ofninum!

Kjúklingurinn á kafi í gumsi og á leiðinni inní ofninn
Kjúklingurinn á kafi í gumsi og á leiðinni inní ofninn
IMG_1760
Komið út úr ofninum og möndlurnar komnar yfir

Að lokum: Ég bar fram með þessu hrísgrjón og eflaust er gott að hafa nýbakað brauð og rauðvín. Öll fjölskyldan var mjög hrifin af þessum rétti. Ég notaði bara kjúklingaleggi því þeir eru vinsælastir hjá Hrafni mínum, svo gott að halda á og naga. Þetta rann ljúflega ofan í mannskapinn og verður pottþétt á borðum aftur! Og já.. þessi uppskrift er í Gestgjafablaðinu með bestu uppskriftum 2007.

Komið á diskinn minn!
Komið á diskinn minn!
Komið á diskinn hans Hrafns Tjörva
Komið á diskinn hans Hrafns Tjörva

 

 

Pollo alla Romana

Eldaði svo dæmalaust dásamlegt í kvöld! Varð bara að skella því hingað inn á meðan ég man! Eldið þetta, þetta er mjöööög ljúffengt!

Þetta þarftu: 1 stór kjúklingur, hlutaður niður í 8 hluta, ólífuolía, 100 gr sveppir, helst litlir, 1 lítill laukur skorinn í sneiðar, 2 hvítlauksgeirar, saxaðir, 1/2 græn paprika, 1/2 rauð paprika, 1/2 græn paprika, tjoppaðar í bita, 1 dós tómatar, saxaðir, 300 ml kjúklingasoð, 200 ml hvítvín, pipar og salt, ferskar kryddjurtir, td rósmarín eða/og basilíka, 2-3 msk söxuð steinselja.

Kjúklingurninn kominn í 8 glæsilega bita!

Svona geririðu: Ofninn er hitaður í 180°C, Kjúklingabitarnir eru brúnaðir á pönnu í olíunni. Sveppum, lauk og hvítlauk bætt útí og látið krauma við frekar vægan hita í nokkrar mínútur. Papriku og tómötum skellt útí (safanum af tómötunum með), líka víninu og soðinu og saltað og piprað. Hitað að suðu og skellt í eldfast mót. Kryddjurtunum skellt útí og inní ofn í 15-20 mínútur. Fínt er að skera aðeins í þykkustu bitana til að athuga hvort kjúklingurinn er tilbúinn.

Að lokum: Þetta er svo borið fram með tagliatelle eða öðru pasta og auðvitað rífur maður parmesan ost yfir og dreypir á hvítvíni með. Okkur fannst þetta öllum gott, krökkunum líka. Ég setti bara heilar rósmarín greinar útí þetta og veiddi þær svo uppúr áður en ég bar þetta fram. Hefði líka verið gott að vera með nýbakað brauð með, en það er alls ekkert nauðsynlegt. Það var reyndar frekar ógó að hluta niður kjúllann og ég hafði aldrei prófað að gera það áður. Ekkert erfitt (notaði þetta mér til innblásturs) en kjúklingar eru bara frekar ógó.. og það eru innyfli og allt inní honum.. ojj.. en mæli samt alveg með því að maður láti vaða í það í staðinn fyrir að kaupa bringur eða einhverja bita. en já þetta er frekar gott..

Potturinn kominn út úr ofninum, Looking good!
og á diskinn minn. Nammmmmm….

Kjúklinganúðlusúpa

 

kjúklinganúðlusúpa þessi er hreinasta dásemd!

 

Þetta þarftu: 200gr kjúklingabringur (svona tvær bringur), 200gr sveppir, 1 blaðlaukur, 2 dl steinselja, 1lítri vatn, 2-3 kjúklingateningar, 125gr eggjanúðlur, 2-4 egg (semsagt hálft eða heilt egg á mann), 2msk sojasósa.

Svona gerirðu: Skerið bringurnar í þunna strimla, skerið sveppina og blaðlaukinn í sneiðar og saxið steinseljuna. Setjið vatn og teningana í stóran pott og sjóðið saman. Bætið núðlum og kjúklingi útí og sjóðið í 2mín. Setjið síðan grænmetið útí og sjóðið áfram í 3-4 mínútur. Kryddið með soja. Sjóðið eggin þanig að þau verði svona hálf-harðsoðin, skerið þau svo til helminga langsum og setjið einn helming í hverja skál.

Að lokum: Þetta er æðisleg súpa. Mjög einföld og fljótleg og hráefnið frekar ódýrt. Það er auðvitað hægt að nota ódýrari part af kjúllanum en bringurna, en þær eru samt alltaf bestar. Pabbi eldar þessa súpu oft en uppskriftin er upprunalega úr pastabókinni hans. Það er eiginlega nauðsynlegt að borða með þessu nýbakað brauð og drekka gott hvítvín með. Þá er þetta hin fullkomna máltíð. Ég fæ eiginlega bara heimþrá á Hraunhól 8 þegar ég hugsa um þessa súpu.. HB

Afrískur kjúlli

Gestakokkur – Helga Rún

Helga Rún er gestakokkur að þessu sinni. Hún sendi inn, alla leið frá Álaborg, þessa frábæru kjúklingauppskrift! Takk fyrir það :)

Þetta þarftu: 4-5 kjúklingabringur, 2 msk matarolíu til steikingar, 3 pressaða hvítlauksgeira, 2 saxaða lauka, ½ tsk salt, 5 tsk hot Curry Madras, 2 tsk cumin duft, 1 tsk paprikuduft, ¾ tsk kanil, 4 msk matarolíu, 2 msk púðursykur. Sósa: 1 dós niðursoðna tómata (nota vökvann), 6 msk soyasósu, 2 tsk edik, ½ tsk salt, 1 tsk pipar, 2 dósir hrein jógúrt (blandað út í í lokin) Meðlæti:4 msk kókosmjöl, 1 banani, rauðar og grænar paprikuræmur

Svona geririðu: Mýkja hvítlauk og lauk í olíu. Blanda þurra kryddinu saman við og hita vel með lauknum – ca. 1 min. Blanda 4 msk af olíu og 2 msk af púðursykri vel saman við. Láta í skál og kæla aðeins. Skera kjúklingabringur í strimla. Steikja á pönnu þar til kjötið er orðið hvítt að utan, blanda kjúklingi saman við kryddblönduna og láta bíða á meðan sósan er búin til. Þegar hún er búin til er öllu nema jógúrtinu blandað saman vel saman. kjúklingurinn er þá settur útí og hann látinn sjóða í 15 mínútur, jógúrtin er sett út í og látin sjóða með síðustu 5 mínúturnar. Meðlætið er gert þannig að þú ristar kókosmjölið á heitri og þurri pönnu og bætir svo bananabitum og paprikuræmum útá.

Að lokum: Með þessum rétti ber Helga Rún fram hrísgrjón og mango chutney. get ímyndað mér að þetta sé alveg Gebba gott.. namm kókos og bananar! Ótrúlega sneddí. Og nú þegar ég er búin að setja réttinn inn á þennan skemmtilega vef minn þá man ég pottþétt eftir að elda hann :)
Mér finnst að aðrir lesendur ættu að taka hana Helgu sér til fyrirmyndar og senda inn uppskriftir og hananú!

Kjúklingasamloka fermingardrengsins

Gestakokkurinn er Kolla

Gestakokkurinn og fermingardrengurinn á fermingardaginn

kollasaeta skrifar: úff.. eldaði kjúklingasamloku handa okkur í kvöld.. ætlaði í leikfimi en mig vantaði spark í rassinn.. og ákvað því að elda eitthvað gott.. og afþví að ég gerði mitt fyrsta fermingarthing í dag, ég keypti sálmabók með gyllingu, þá fékk fermingardrengurinn tilvonandi að velja kvöldmat og hann vildi kjúklingasamloku.. ég hef oft eldað svona samloku en í kvöld toppaði ég sjálfa mig.. sjitt hvað þetta var gott..

Þetta þarftu: tja eða það sem notaði í kvöld..kjúklingabringur, ca eina á mann, snittubrauð, æ þessi þarna frönsku, eitt á mann (það ætti allavega að duga en stundum borða mínir menn tvö :) , beikon, sveppir, iceberg, paprika, gúrka, tómatar, rauðlaukur, ólifuolía, hvítlaukur, kartöflur, fersk steinselja, ferskt rósmarín, hvítlaukskrydd. Hér er öllum frjálst að improvisera.. þetta er bara það sem ég notaði í kvöld..

Þetta gerði ég: Kartöfurnar skornar í báta og sett í eldfast mót, fersk steinselja og Rósmarín tjoppað smátt og stráð yfir og kryddað svo með hvítlaukskryddi, ólífuolíu helt yfir kannski ca 2msk. Þessu er öllu svo makað saman og bakað í ofni við 200° í svona 35-40mín. Kjúklingurinn kryddaður með góðu kjúklingarsteikarkryddi, skellt á sjóðandiheita pönnu í 3 mín á hvorri hlið, sett á grind og inn í ofn í 20 mín við 200°.Grænmetið sem þú ætlar að hafa með þessu er tjoppað þannig að það sé þægilegt að setja það á snittubrauð. Næst tók ég snittubrauðin, sker þau eftir endilöngu og þegar bringurnar og kartöfurnar eru tilbúnar set ég þau inn í ofn í svona 8 – 10 mín, þannig að helmingur sé við hliðina á helming.. á meðan læt ég kjúllan jafna sig græja beikonið og sveppina.. beikonsneiðarnar sker ég í tvennt, steiki þær og set þær svo á eldhúsrúllupappir til að taka mestu fituna. Sveppirnir eru skornir og steiktir upp úr smjöri/ólífuolíu og kryddaðir með salti og hvítlaukskryddi. Þegar bringurnar eru búnar að jafna sig smá eru þær skornar í sneiðar. Þegar brauðin eru til þá tek ég hvítlauksrif og nudda heit brauðin með þeim og svo læt ég smá góða ólífuolíu leka á brauðin. Svo raðar maður bara saman á samlokuna sína það sem maður vill.

Að lokum: Eiður notar alltaf bbq sósu á sína samloku og Palli notar yfirleitt sinnep. Við Birkir látum yfirleitt olíuna duga.. Við notum tannstöngla og allt til að halda þessu saman.. voða voða pró hjá okkur.. Svona leit mín út, innihald: kál, gúrka, rauðlaukur, sveppir, beikon, kjúklingabringa, ólifuolía.. sjæse hvað þetta var gottttt..

Kjúklingur Jambalaya

Ég og Pési gæddum okkur á þessu um síðustu helgi og ég bara skora á ykkur að prófa!

Þetta þarftu: 4 kjúlingabringur skornar í munnbita, olía, 1 saxaður laukur, 4 hvítlauksrif, 1/2 – 1 saxaður og fræhreinsaður chilipipar, 2 1/2 dl hrísgrjón, 2 dl hvítvín (+ það sem drekka á með), 5 dl kjúklingasoð, 10 risarækju, 4 saxaðir tómatar – helst vel þroskaðir, söxuð steinselja, salt og nýmalaður pipar.

Svona gerirðu: Steikið kjúklingabitana í olíu og geymið svo. Steikið svo laukinn og hvítlaukinn í olíu þar til hann verður svona mjúkur og glær, bætið þá paprikunni og chiliinu útí og steikið áfram í smástund. Svo er hrísgrjónunum bætt útí líka og þau steikt í smá stund með hinu. Þá er hvítvíninu hellt útí, hrært og látið malla smá. Svo er kjúklingasoðinu líka hellt útí og lok sett á pottinn og látið sjóða þar til grjónin eru soðin. Þá er rækjunum bætt við (auðvitað er skelin tekin af fyrst) og þær látnar malla með þangað til þær verða bleikar. Það tekur sirka mínútu eða tvær. Að lokum er tómötunum og kjúklingnum hrært saman við og allt kryddað með salti og pipar og steinselju.

Að lokum: Þessi uppskrift, upphaflega úr gestgjafanum en þar aðeins öðruvísi, er upprunin frá Louisiana. Þar er algengt að blanda saman skelfiski og kjúklingakjöti. Þetta myndi flokkast undir creola matargerð. Þetta er bara best í heimi! Ótrúlega gott. Gott að borða nýbakað massabrauð kollu sætu með þessu og sötra hvítvínið. Þessi réttur er sko algjör uppáhalds

Gentse Waterzooi

Þetta þarftu: 3 blaðlaukar, 3 sellery stilkar, 1 góður poki af gulrótum, 1 kúrbítur, 1 góður laukur, 3-4 hvítlauksgeirar, 3-4 kjúllabringur, 1 búnt kerfill, 1 búnt fersk steinselja, 1 pottur rjómi, salt og pipar, 2 kjúklingateningar, lárviðarlauf

Svona gerirðu: Byrjað er á því að sjúða kjúllann í potti með smá piparkornum, lárviðarlaufi og ólífuolíu. Þegar hann er tilbúinn þá skuluð þið hella vatninu af og láta kjúllann kólna. Saxið svo allt grænmetið. Síðan er málið að ná sér í stóran og góðan pott og svissa grænmetið allt saman (samt ekki steinseljuna og kerfilinn) þannig að það verði mjúkt. Laukurinn/blaðlaukurinn má allsekki verða brúnn þannig að keep the heat down. Þegar alltsaman er orðið vel mjúkt og gott er ca 1,5 lítra af vatni hellt útí pottinn, hendið líka teningunum útí og látið suðuna koma upp og svo malla í nokkrar mínútur. Hversu lengi fer bara eftir því hvað þið viljið hafa gulræturnar krönsí. Síðan er kjúllanum bætt út í og smakkað til með salti og pipar (fullt af pipar). Svo rétt áður en ykkur langar að borða gúmmelaðið þá skellið þið steinseljunni og kerflinum útí ásamt rjómanum. Passið bara að sjóða ekki rjómann.

Toggi snillingur

Að lokum: Þessi uppskrift er frá snillingnum honum Þorgrími bróður mínum. þetta er sko belgískur matur eins og hann er eldaður í Gent þar sem snillingurinn býr í góðu yfirlæti. Ég smakkaði þetta fyrst í sumar þegar hann eldaði þetta handa okkur á Hraunhólnum. Þetta sló heldur betur í gegn hjá mér og Pésa og við eldum þetta oft. Það er líka hægt að nota heilan kjúkling í staðinn fyrir bringur. það er soldið meira moj því þá þarf að taka af honum skinnið og beinin þegar maður er búinn að sjóða hann. Mér finnst líka best að skera allt grænmetið í svona mjóar ræmur og tæta kjúklinginn niður eftir suðuna í staðinn fyrir að skera hann í bita.. en svona er ég nú skrítin. Svo nota ég líka alltaf matraeiðslurjóma en ekki venjulegan, til að passa línurnar. Allavega þá er þetta algjörlega æðislegur matur og alveg bráðhollur og bara mega gebba ógó þroskó mongó mikil snilld! Takk fyrir mig Toggi minn :)

Pestókjúklingur

Þetta þarftu: 4-5 vel þroskaða tómatar, 4 msk pestó (venjulegt grænt), skvettu af ólífuolíu (extra virgin, 1/2 dl rauðvín, 2 kjúklingabringur (skinn- og beinlausar) og 50-75g fetaost.

Svona gerirðu: Hitið ofnin í 200°C. saxið tómatana frekar smátt og setið þá í eldfast mót. Hrærið svo 1 msk af pestói, ólífuolíu og rauðvíninu saman við og saltið og piprið. Ýtið svo tómötunum út til hliðanna. Smyrjið kjúllann á báðum hliðum með afgangnum af pestóinu og setjið hann svo í miðjuna á fatinu. Fetaosturinn er svo mulinn yfir allt saman og rétturinn bakaður í ofni í svona 20mín eða þangað til að kjúklingurinn er steiktur í gegn.

Að lokum: Þetta er svaka góður kjúklingur og ótrúlega einfalt að elda hann. Uppskriftin er upprunalega fengin úr Gestgjafanum en í hvert skipti sem ég elda hann prófa ég eitthvað nýtt. Haf til dæmis bætt við ólífum og furuhnetum, líka papriku og bara allskonar. Þetta er sérlega góður réttur í rómantískan kvöldverð fyrir tvo því svo drekkur maður auðvitað afganginn af rauðvíninu með. Ef þið eruð í stuði þá er gott að borða nýbakað brauð með þessu og mæli ég þá auðvitað með Massa brauði Kollusætu :)