Category Archives: kökur

Súkkulaðikökurnar hennar Hugrúnar ömmu

Þegar ég var polli þá var oft farið til ömmu á Austurbrautinni um jólin. Jólasveinninn límdur í eldhúsgluggann, litli jólabærinn með ljósunum inní og snjónum fyrir utan, jólatréð með englahárinu, allt saman ómissandi hluti af jólunum. Að sjálfsögðu fékk maður svo allskyns kökur og nammi. Súkkulaðikökurnar eru sérstaklega eftirminnilegar enda dásamlega góðar.

Mér skilst að uppskriftin komi úr bókinni “Bökun í heimahúsum” sem var fyrsta bók Helgu Sigurðardóttir og kom bókin út fyrst árið 1930.

Þetta þarftu:

300gr hveiti

150gr kókosmjöl

3/8 tsk hjartarsalt

300gr smjörlíki

4tsk kakó

2 Egg

Vanilla

Svona gerirðu:

Hveitinu og hjartarsaltinu sáldrað á borð og smjörlíkið mulið saman við. Þar í er blandað sykri, kókosmjöli og kakóinu. Vanilludroparnir látnir útí. Hnoðað saman með egginu, þar til það er jafnt. Rúllað í lengjur, sem eru skornar í jafna bita. Hver biti er hnoðaður í kúlu sem er svo dýft í sykur með söxuðum möndlum útí. Bakað við góðan og jafnan hita þar til kökurnar eru gegnum þurrar.

Kókoskúlurnar hennar mömmu

Þegar ég var polli, þá bjó mamma stundum til kókoskúlur fyrir jólin. Í minningunni er þetta ein mesta dásemd sem fór inn fyrir mínar varir á þeim tíma 🙂 En hérna á eftir kemur uppskriftin:

Þetta þarftu:

3 dl haframjöl
2 dl sykur
2 msk kakó
örlítið af vanilludropum
1 msk púðursykur
2 msk vanillusykur
1 msk kalt kaffi
100 gr smjörlíki

Svona gerirðu:

sykur og smjörlíki brætt í potti
kælt og blandað saman við efnið
svo gerðar kúlur úr og velt upp úr kókosmjöli. Þær eiga að vera pínu blautar.

Settar í frysti og laumast í þegar enginn sér til 🙂

imagehandler

Jóla súkkulaðibitasmákökur

Set þessa uppskrift hingað inn fyrir hann Tedda mág minn. Hann alveg elskar þessar smákökur og ætlar að prófa að baka þær þessi jól. Vona samt að hann komi í heimsókn og fái sér allavega eina hjá mér líka.

mmmm nýbökuð
mmmm nýbökuð

Þetta þarftu: 1/2 bolli lint smjör, 1/2 bolli sykur, 1/2 bolli púðursykur, 1 egg, 1 1/2 bolli hveiti, 1/2 bolli kókosmjöl, 1/4 tsk matarsódi, smá salt, 200 gr síríus konsum suðusúkkulaði saxað í bita.

Svona geririðu: Hrærir saman sykur , púðursykur og smjör, vel og vandlega þangað til það er létt og ljós. Þá seturðu eggið útí  og hrærir meira. Því næst fer hveitið og matarsódinn og saltið út í og að síðustu kókosmjölið og súkkulaðið. Hrærið allt vel saman. Bökunarpappír settur á plötu og búnar til litlar kúlur/klessur úr deiginu og raðað á plötuna og bakað við meðalhita (200°) í 8-10 mínútur eða þangað til þær eru orðnar ljósbrúnar.

Að lokum: Þessar kökur eru það fyrsta sem er bakað fyrir hver jól á öllum heimilum í minni fjölskyldu. Lyktin af þeim eru lyktin af jólunum á mínu heimili. Þegar ég var lítil og öll systkini mín bjuggu heima hjá mömmu og pabba þá bakaði mamma allavega fjórfalda uppskrift! við bökum svona tvöfalda núna.. það er af sem áður var! Það er algjör skylda að ýta svolítið niður á kökurnar með gaffli áður en þær eru bakaðar svo það komi svona gaffalaför í þær. Mamma mín gerði það alltaf. og já.. þær fletjast svolítið út við bakstur þannig að þarf smá bil á milli þeirra.

Þarna er ég ólétt af Hrafni Tjörva að gæða mér á nýbakaðri súkkulaðibitasmáköku, jólin 2008 :)
Þarna er ég ólétt af Hrafni Tjörva að gæða mér á nýbakaðri súkkulaðibitasmáköku, jólin 2008 🙂

 

 

Klessumöffins

Þessar verða sunnudagssyndin í dag. Ég bakaði þessar kökur fyrst handa systkinum mínum þegar ég bauð þeim til mín í hádegismat á afmælisdaginn minn. Langaði til að gefa þeim eitthvað æðislega gott og fallegt, en auðvelt og fljótlegt. Þetta var akkúrat það.

IMG_2675

Þetta þarftu: 100g smjör, 2 egg, 3 dl sykur, 1,5 dl hveiti, 1 dl kakó, 1 msk vanillusykur, 1/4 tsk lyftiduft. Rjómi og jarðaber, helst íslensk.

Svona geririðu: Bræðið smjörið. Blandið öllum þurrefninum saman og hrærið smjörinu svo saman við. Eggjunum er hrært saman við í lokin. Skiptið deiginu í 12 muffinsform og bakið við 175°C í 12-15 mínútur

Að lokum: Þetta verður ekki auðveldara. Ég sett formin í svona möffinsbökunarplötu sem ég keypti mér í Kokku. Þá verða kökurnar svo flottar. Mér finnst reyndar svolítið erfitt að taka kökurnar uppúr þegar þær eru tilbúnar því þær eru svo svaka mjúkar. Svo lætur maður þær kólna aðeins og setur rjómaslettu ofaná þær og jarðaber. Þá eru þær bara fullkomnar… Uppskriftin er fengin frá ljúfmeti og lekkerheitum (sjá link undir matarblogg)

 

 

Eplakaka

Bakaði þessa eplaköku í dag. Þetta er auðvelda eplakakan hennar Kollu. Og þar sem við áttum einmitt þrjú epli sem voru við það að skemmast þá ákvað ég að skella í þessa og heppnaðist hún svona líka vel! Akkúrat það sem þurfti til að ná mér aðeins upp eftir vonbrigðin yfir því að Íslendingar létu tækifærið sér úr greipum ganga að kjósa sér nýjan forseta.. þeir kusu sér gamlan og súran.. þá er gott að fá sér sæta eplaköku.

Ilmandi eplakaka…..

Þetta þarftu: 300 gr hveiti, 300 gr sykur, 300 gr smjör, 3 egg, 3 epli, 1 1/2 tsk lyftiduft

Svona gerirðu: Hrærðu saman egg og sykur. smjörið er brætt og bætt útí, svo hveitið og lyftiduftið. Skellið deiginu í smjörað form. Skerið epli í litla báta og skrællið og raðið ofan á deigið. Þvínæst stráið þið kanil yfir. Svo inn í ofn í svona þrjú korter.

Að lokum: Þetta er auðvelda kakan því það er svo auðvelt að muna hvað er í henni. þrennt af öllu! og maður á líka eiginlega alltaf í hana. Það er algjört overkill að setja kanilsykur yfir hana því það er feikinóg af sykri í henni. Alveg nóg að sáldra bara kanildufti. Svo auðvitað borðar maður rjóma með.. mér finnst líka overkill að borða ís með henni því hún er sæt og verður of sæt með ís.. Frábær sunnudagskaka!

 

Kókosbolluterta

Þetta þarftu: Botnar: 4 egg, 125gr sykur, 1 tsk lyftiduft, 2 msk hveiti, 100g suðusúkkulaði. Fylling: 21/2 dl rjómi, 4 kókosbollur. Ofaná: 100gr suðusúkkulaði, 1 msk matarolía, 2 dl þeyttur rjómi.

Svona gerirðu: Botn: Þeytið egg og sykur saman, brytjið súkkulaði og blandið því í ásamt hveiti og lyftidufti. Smyrjið tvö tertuform mjög mjög mjög vel helið deiginu í. Bakist í 20mín við 200°C. Látið botnana kólna vel áður en þið takið þá úr, það getur verið soldið erfitt. Fylling: Skerið kókosbollur í þrennt og raðið á annan botninn. Þeytið rjómann og smyrjið ofaná kókosbollurnar. Setjið svo hinn helminginn yfir. Ofaná: Bræðið saman súkkulaði og olíu og smyrjið ofan á tertuna. Látið þetta harðna og notið svo rjómasprautuna ykkar til að skreyta hliðarnar með rjóma.

Að lokum: Þetta er alveg svakaleg bomba. Ég bakaði hana fyrst þegar ég þurfti að baka tertu fyrir skírnina hennar Sunnu Kristínar, litlu frænku minnar, og hún sló sko í gegn! Það var í fyrsta skipti sem ég bakaði tertu og ég keypti mér meira að segja rjómasprautu til að fullkomna þetta. Það er best að láta tertuna standa aðeins í ísskápnum áður en hún er borðuð. Þá er hún algjör æði.. HB

Pönnukökuveisla

Á laugardaginn bökuðum við pönnukökur í kaffinu. Hann Hrafn Tjörvi gjörsamlega elllskar pönnukökur og þessvegna bökum við þær oft! Hann er meira að segja farinn að læra uppskriftina! Hann er voðalega duglegur að hjálpa mömmu sinni að setja allt útí skálina og sér eiginlega um allt nema mjólkina eggið og smjörið. Duglegi bakaradrengurinn!

Hérna eru nokkrar myndir af pönnukökuveislunni og uppskriftin þar á eftir

ummmmmm delissíus!

Kolbrún Lilja fékk að smakka eina með smjöri

Bakarinn ánægður með afraksturinn

Bakaradengurinn duglegi

Þetta þarftu: 2 1/2 dl hveiti, 1/4 tsk salt, 1 tsk vanillusykur, 1/2 tsk lyftiduft, 1/2 tsk matarsódi, 2 egg, 3-4 dl mjólk, 25 gr smjör.

Svona gerirðu: Bræðið smjörið á pönnunni.  Þeytið saman eggin og vanillusykurinn og blandið svo mjólkinni saman við og smjörinu. Að lokum er þurra dótið sett útí smám saman á meðan hrært er svo ekki komi kekkir. Svo eru pönnukökurnar steiktar á pönnukökupönnu, helst einhverri vel notaðri með góðri sál 🙂

Að lokum: Mér finnst best að bræða smjörið á pönnunni en samt ekki við of mikinn hita svo það verði ekki mjög heitt. Svo hita ég alltaf mjólkina aðeins í öbbanum svo að smjörið storkni ekki í mjólkinni þegar ég blanda því saman. Svo bara þeyta massa vel svo þetta verði nú ekki kekkjótt. Ég helli svo alltaf líka umframdeigi af pönnunni aftur útí deigskálina svo pönnsurnar verði þunnar og góðar. Veit ekki hvað þetta eru margar pönnsur, en þetta er akkúrat passlegur skammtur fyrir okkur þrjú.. þarf líklega að bæta í þegar Kolbrún Lilja kemst á bragðið….

Jógúrtbollurnar hennar tengdamömmu

Svo gómsætar!

Um helgina síðustu þá vorum við Kolla systir í þvílíku bökunarstuði og á laugardeginum ákváðum að baka eitthvað sem er bæði ótrúlega gott og auðvelt að grípa í þegar mann langar í ‘eitthvað’. Kolla ákvað að baka kanilsnúða og ég ákvað að baka þessar muffins. Þær áttu að vera með kvöldkaffinu á laugardeginum og svo til að narta í næstu daga. Það er skemmst frá því að segja að þetta kláraðist næstum allt á laugardagskvöldinu!

Þetta þarftu: 3 egg, 400gr sykur, 250gr smjörlíki lint, 600gr hveiti, 1/2 tsk natron, 1/2 tsk salt, 1 dós kaffijógúrt, 2msk heitt vatn, 2 tappar vanilludropar, 1 poki spænir

Svona gerirðu: Öllur draslinu blandað saman og sett í svona muffinsform. Bakað við 190°C þartil bollurnar eru orðnar ljósbrúnar að ofan.

Að lokum: Þetta er uppskrift frá tengdamömmu minni henni Konný. Hún bakaði þetta oft þegar Pétur og systkini hans voru yngri. Pétri finnst þetta bara það besta í heimi! Uppskriftin fyllir alveg stóra macintosh dollu og það er ekkert betra en að stelast í hana. Við bökum þetta stundum við sérstök tækifæri og klárast þá skammturinn ansi fljótt!!  Ég hef sett svona síríus konsum súkkulaðibita í staðinn fyrir spæni stundum og það er líka alveg rosalega gott. Ég prófaði í þetta skiptið að setja formin í svona sérstaka möffins ofnplöru og það var ferlega þægilegt því þá fletjast þær ekkert út og verða mjög lögulegar. Algjör skylda að drekka ískalda mjólk með!!

MEIRIHÁTTAR kanilsnúðar!

Á degi eins og þessum þegar allt er alveg MEIRIHÁTTAR! tómur ísskápur, tómt veski, bíllinn á verkstæði og allt lítur út fyrir að við missum að hinni stórkostlegu hátíð Hraunhóll 2011 núna um versló, þá er aðeins eitt í stöðunni. Maður bakar MEIRIHÁTTAR kanilsnúða!

Svo mjúkir og góðir og MEIRIHÁTTAR!!!!

Þetta þarftu:  850 g hveiti, 1 tsk sykur, 150 g smjör, 5 dl volg mjólk, 1 tsk salt, 50 g pressuger eða 5 tsk þurrger, slatti kanilsykur og auka smjör.

Svona gerirðu: Volg mjólk er sett í hrærivélaskálina ásamt geri og teskeið af sykri. Bræðið smjörið og setjið saman við. Bætið hveitinu við og hnoðið deigið. Þegar deigið er orðið draumi líkast er það látið hefast í 40-60 mínútur. Því næst er aukasmjörið brætt, deigið flatt út og smurt með smjörinu. Svo er kanilsykrinum stráð yfir, magn eftir smekk. Rúllið svo deiginu upp og skerið niður í sirka jafnþykka snúða. Skellið þessu á plötu og bakið við 200-220°C í sirka 10 mínútur.

Að lokum: Ég tek það fram að þetta er riiiiiisastór uppskrift. Þegar ég baka þetta handa okkur hérna heima þá baka ég bara hálfa uppskrift og fæ úr því 20-25 snúða. Ef öll uppskriftin er bökuð í einu er gott að skipta deiginu í tvennt áður en það er flatt út og gera þetta í tveimur hollum. Langbesti volgir en þeir eru ennþá MEIRIHÁTTAR daginn eftir.

Uppfært: Bökuðum þá aftur um daginn þegar Brynjar, Harpa og Elías Máni komu í heimsókn. Ekki skemmdi að setja á þá svolítið glassúr, bleikt með vanillubrafgði og súkkulaðiglassúr!

sjúklega góðir og gasalega lekkerir með glassúri !

 

Appelsínukaka

Himnesk alveg hreint..

Bökuðum þessa Appelsínuköku í dag. Langaði að gefa honum Hrafni mínum eitthvað gott í drekkutímanum og þá er þessi kaka einmitt svo upplögð því maður á eiginlega alltaf allt í hana! Pétur mætti svo heim úr vinnunni beint í volga kökusneið og var mjög ánægður með húsmóðurina haha 🙂

Þetta þarftu: 150gr sykur, 2 egg, 150gr smjörlíki, 150gr hveiti, 1 tsk lyfitduft, dálitla mjólk og nýkreistan appelsínusafa, flórsykur.

Svona gerirðu: Byrjaðu á því að þeyta saman sykurinn og egginn. Blandaðu svo bræddu smjörlíkinu, hveitinu og lyftiduftinu samanvið og hrærðu. Ef deigið er þykkt blandaðu þá smáveigis af mjólk við til að lina það upp eða appelsínusafa. Skelltu þessu svo í kökuform (svona kringlótt) og bakaðu við 200°C í í 30 mín. Á meðan kakan bakast þá skaltu hræra saman flórsykri og nýkreistum safa í glassúr. Þegar kakan er bökuð leyfirðu henni að kólna og tekur úr forminu. Svo er bara að glassúra!

Að lokum: Æðislega góð kaka sem mamma leyfði okkur systrum oft að baka þegar við vorum litlar. Mjög einfalt og fljótlegt að baka. Ef þið nennið ekki að kreista safa úr appelsínum er alveg hægt að nota safa úr fernu. Passa bara að hafa hann 100% og helst með aldinkjötinu. Ekta kaka til að baka þegar tilefnið er ekkert og þér langar bara í köku… HB

Hrafni Tjörva finnst appelsínukakan algjört gúmmelaði!!