Category Archives: uppskriftir

Massabrauð Kollu sætu

Þetta þarftu: Fimmsinnum 250ml hveiti, 5dl vatn (volgt), eitt gerbréf, góðan slump af olíu, smá salt og 1msk sykur.

Svona gerirðu: Setjið volga vatnið í skál og setjið gerið út í það ásamt sykrinum og saltinu. Þetta er hrært saman þangað til gerið leysist upp. Svo skal hveitinu hrært út í smám saman. Takið svo deigið úr skálinni og hnoðið það þangað til það verður æðislegt. Þvínæst er það látið hefast í amk 45mín. Þá mótið þið tvö brauð úr deiginu og látið hefast aftur í svona hálftíma. Svo er þetta bakað við 180°C-200°C þangað til það fer að dekkjast.

Að lokum: Þetta er alveg massa brauð.. og þau eru tvö.. brauðin, ha? súkkulöðin?? nei, tvíburarnir! hahahah.. allavega.. Ég baka þetta brauð eiginlega alltaf þegar ég baka brauð með mat (kjúklingasúpunni, pestókjúlingnum og allskonar). Einusinni bakaði ég þetta líka öðruvísi en þá setti ég sólþurrkaða tómata í deigið og úr varð svo gott tómatbrauð að ein í saumaklúbbnum hélt að það væri frá Jóa Fel.. iss nei, þetta er sko frá Kollu sætu !!

Franski lambakjötspottrétturinn

Þetta þarftu: 1 kg lambaframhryggjarsneiðar, helst nokkuð þykkar, nýmalaður pipar, salt, 1 msk olía, 25 gr smjör, 100 gr beikon, 1 laukur, saxaður smátt, 1-2 hvítlauksgeirar, 3-4 gulrætur, 1 rósmaríngrein, 1 dós (250 ml) tómatmauk (puré), 250 ml rauðvín, má vera óáfengt, vatn eftir þörfum, 500 gr kartöflur

Svona gerirðu: Ofninn hitaður í 160°C. Hver framhryggjarsneið skorin í 2-3 bita og þeir kryddaðir með pipar og salti. Olía og smjör hitað á pönnu og kjötið brúnað vel. Tekið af pönnunni og sett í stórt, eldfast mót. Beikonið skorið í bita, sett á pönnuna og steikt í 2-3 mínútur. Þá er lauk, hvítlauk, gulrótum og rósmaríni bætt á pönnuna og það látið krauma áfram í nokkrar mínútur. Tómatmauki og rauðvíni hrært saman við og síðan er öllu saman hellt yfir kjötið, þétt lok lagt yfir fatið eða álpappír breiddur vel yfir, og það sett í ofninn. Látið malla í um eina og hálfa klukkustund. Svolitlu vatni bætt við ef þarf en vökvinn á aldrei að fljóta yfir kjötið og sósan á að þykkna af sjálfu sér.  Kartöflurnar afhýddar og skornar í bita. Fatið tekið úr ofninum, rósmaríngreinin veidd upp úr, kartöflunum dreift jafnt á milli kjötbitanna, fatið sett aftur í ofninn og látið malla í um 30-40 mín í viðbót, eða þar til kartöflurnar eru meyrar.

Að lokum: Þetta er algjörlega geeeeðveikur réttur, hefur ósjaldan verið eldaður og er hreinlega guðdómlegur með góðu rauðvíni, góðu brauði, við kertaljós á köldu vetrarkvöldi.

 

 

Kókosbolluterta

Þetta þarftu: Botnar: 4 egg, 125gr sykur, 1 tsk lyftiduft, 2 msk hveiti, 100g suðusúkkulaði. Fylling: 21/2 dl rjómi, 4 kókosbollur. Ofaná: 100gr suðusúkkulaði, 1 msk matarolía, 2 dl þeyttur rjómi.

Svona gerirðu: Botn: Þeytið egg og sykur saman, brytjið súkkulaði og blandið því í ásamt hveiti og lyftidufti. Smyrjið tvö tertuform mjög mjög mjög vel helið deiginu í. Bakist í 20mín við 200°C. Látið botnana kólna vel áður en þið takið þá úr, það getur verið soldið erfitt. Fylling: Skerið kókosbollur í þrennt og raðið á annan botninn. Þeytið rjómann og smyrjið ofaná kókosbollurnar. Setjið svo hinn helminginn yfir. Ofaná: Bræðið saman súkkulaði og olíu og smyrjið ofan á tertuna. Látið þetta harðna og notið svo rjómasprautuna ykkar til að skreyta hliðarnar með rjóma.

Að lokum: Þetta er alveg svakaleg bomba. Ég bakaði hana fyrst þegar ég þurfti að baka tertu fyrir skírnina hennar Sunnu Kristínar, litlu frænku minnar, og hún sló sko í gegn! Það var í fyrsta skipti sem ég bakaði tertu og ég keypti mér meira að segja rjómasprautu til að fullkomna þetta. Það er best að láta tertuna standa aðeins í ísskápnum áður en hún er borðuð. Þá er hún algjör æði.. HB

Pönnukökuveisla

Á laugardaginn bökuðum við pönnukökur í kaffinu. Hann Hrafn Tjörvi gjörsamlega elllskar pönnukökur og þessvegna bökum við þær oft! Hann er meira að segja farinn að læra uppskriftina! Hann er voðalega duglegur að hjálpa mömmu sinni að setja allt útí skálina og sér eiginlega um allt nema mjólkina eggið og smjörið. Duglegi bakaradrengurinn!

Hérna eru nokkrar myndir af pönnukökuveislunni og uppskriftin þar á eftir

ummmmmm delissíus!
Kolbrún Lilja fékk að smakka eina með smjöri
Bakarinn ánægður með afraksturinn
Bakaradengurinn duglegi

Þetta þarftu: 2 1/2 dl hveiti, 1/4 tsk salt, 1 tsk vanillusykur, 1/2 tsk lyftiduft, 1/2 tsk matarsódi, 2 egg, 3-4 dl mjólk, 25 gr smjör.

Svona gerirðu: Bræðið smjörið á pönnunni.  Þeytið saman eggin og vanillusykurinn og blandið svo mjólkinni saman við og smjörinu. Að lokum er þurra dótið sett útí smám saman á meðan hrært er svo ekki komi kekkir. Svo eru pönnukökurnar steiktar á pönnukökupönnu, helst einhverri vel notaðri með góðri sál 🙂

Að lokum: Mér finnst best að bræða smjörið á pönnunni en samt ekki við of mikinn hita svo það verði ekki mjög heitt. Svo hita ég alltaf mjólkina aðeins í öbbanum svo að smjörið storkni ekki í mjólkinni þegar ég blanda því saman. Svo bara þeyta massa vel svo þetta verði nú ekki kekkjótt. Ég helli svo alltaf líka umframdeigi af pönnunni aftur útí deigskálina svo pönnsurnar verði þunnar og góðar. Veit ekki hvað þetta eru margar pönnsur, en þetta er akkúrat passlegur skammtur fyrir okkur þrjú.. þarf líklega að bæta í þegar Kolbrún Lilja kemst á bragðið….

Jógúrtbollurnar hennar tengdamömmu

Svo gómsætar!

Um helgina síðustu þá vorum við Kolla systir í þvílíku bökunarstuði og á laugardeginum ákváðum að baka eitthvað sem er bæði ótrúlega gott og auðvelt að grípa í þegar mann langar í ‘eitthvað’. Kolla ákvað að baka kanilsnúða og ég ákvað að baka þessar muffins. Þær áttu að vera með kvöldkaffinu á laugardeginum og svo til að narta í næstu daga. Það er skemmst frá því að segja að þetta kláraðist næstum allt á laugardagskvöldinu!

Þetta þarftu: 3 egg, 400gr sykur, 250gr smjörlíki lint, 600gr hveiti, 1/2 tsk natron, 1/2 tsk salt, 1 dós kaffijógúrt, 2msk heitt vatn, 2 tappar vanilludropar, 1 poki spænir

Svona gerirðu: Öllur draslinu blandað saman og sett í svona muffinsform. Bakað við 190°C þartil bollurnar eru orðnar ljósbrúnar að ofan.

Að lokum: Þetta er uppskrift frá tengdamömmu minni henni Konný. Hún bakaði þetta oft þegar Pétur og systkini hans voru yngri. Pétri finnst þetta bara það besta í heimi! Uppskriftin fyllir alveg stóra macintosh dollu og það er ekkert betra en að stelast í hana. Við bökum þetta stundum við sérstök tækifæri og klárast þá skammturinn ansi fljótt!!  Ég hef sett svona síríus konsum súkkulaðibita í staðinn fyrir spæni stundum og það er líka alveg rosalega gott. Ég prófaði í þetta skiptið að setja formin í svona sérstaka möffins ofnplöru og það var ferlega þægilegt því þá fletjast þær ekkert út og verða mjög lögulegar. Algjör skylda að drekka ískalda mjólk með!!

MEIRIHÁTTAR kanilsnúðar!

Á degi eins og þessum þegar allt er alveg MEIRIHÁTTAR! tómur ísskápur, tómt veski, bíllinn á verkstæði og allt lítur út fyrir að við missum að hinni stórkostlegu hátíð Hraunhóll 2011 núna um versló, þá er aðeins eitt í stöðunni. Maður bakar MEIRIHÁTTAR kanilsnúða!

Svo mjúkir og góðir og MEIRIHÁTTAR!!!!

Þetta þarftu:  850 g hveiti, 1 tsk sykur, 150 g smjör, 5 dl volg mjólk, 1 tsk salt, 50 g pressuger eða 5 tsk þurrger, slatti kanilsykur og auka smjör.

Svona gerirðu: Volg mjólk er sett í hrærivélaskálina ásamt geri og teskeið af sykri. Bræðið smjörið og setjið saman við. Bætið hveitinu við og hnoðið deigið. Þegar deigið er orðið draumi líkast er það látið hefast í 40-60 mínútur. Því næst er aukasmjörið brætt, deigið flatt út og smurt með smjörinu. Svo er kanilsykrinum stráð yfir, magn eftir smekk. Rúllið svo deiginu upp og skerið niður í sirka jafnþykka snúða. Skellið þessu á plötu og bakið við 200-220°C í sirka 10 mínútur.

Að lokum: Ég tek það fram að þetta er riiiiiisastór uppskrift. Þegar ég baka þetta handa okkur hérna heima þá baka ég bara hálfa uppskrift og fæ úr því 20-25 snúða. Ef öll uppskriftin er bökuð í einu er gott að skipta deiginu í tvennt áður en það er flatt út og gera þetta í tveimur hollum. Langbesti volgir en þeir eru ennþá MEIRIHÁTTAR daginn eftir.

Uppfært: Bökuðum þá aftur um daginn þegar Brynjar, Harpa og Elías Máni komu í heimsókn. Ekki skemmdi að setja á þá svolítið glassúr, bleikt með vanillubrafgði og súkkulaðiglassúr!

sjúklega góðir og gasalega lekkerir með glassúri !

 

Uppskriftavesen….

Ég er að henda öllum uppskriftunum mínum hingað inn. Ætla bara að setja þær inn sem færslur hér og þar og flokka þær í catagories. Þannig verður held ég ekkert erfitt að finna þær… nenni ekki að eiga tvo vefi. Er alltaf að gleyma passinu á uppskriftavefinn. sjííííííí… ég veit, gebba vesen á mér og ekkert svakalega gaman að copy/paste-a .. afhverju er ég alltaf með þetta vesen?

Appelsínukaka

Himnesk alveg hreint..

Bökuðum þessa Appelsínuköku í dag. Langaði að gefa honum Hrafni mínum eitthvað gott í drekkutímanum og þá er þessi kaka einmitt svo upplögð því maður á eiginlega alltaf allt í hana! Pétur mætti svo heim úr vinnunni beint í volga kökusneið og var mjög ánægður með húsmóðurina haha 🙂

Þetta þarftu: 150gr sykur, 2 egg, 150gr smjörlíki, 150gr hveiti, 1 tsk lyfitduft, dálitla mjólk og nýkreistan appelsínusafa, flórsykur.

Svona gerirðu: Byrjaðu á því að þeyta saman sykurinn og egginn. Blandaðu svo bræddu smjörlíkinu, hveitinu og lyftiduftinu samanvið og hrærðu. Ef deigið er þykkt blandaðu þá smáveigis af mjólk við til að lina það upp eða appelsínusafa. Skelltu þessu svo í kökuform (svona kringlótt) og bakaðu við 200°C í í 30 mín. Á meðan kakan bakast þá skaltu hræra saman flórsykri og nýkreistum safa í glassúr. Þegar kakan er bökuð leyfirðu henni að kólna og tekur úr forminu. Svo er bara að glassúra!

Að lokum: Æðislega góð kaka sem mamma leyfði okkur systrum oft að baka þegar við vorum litlar. Mjög einfalt og fljótlegt að baka. Ef þið nennið ekki að kreista safa úr appelsínum er alveg hægt að nota safa úr fernu. Passa bara að hafa hann 100% og helst með aldinkjötinu. Ekta kaka til að baka þegar tilefnið er ekkert og þér langar bara í köku… HB

Hrafni Tjörva finnst appelsínukakan algjört gúmmelaði!!

Bumbu súkkulaðikakan

Dásamleg sunnudagskaka

Þetta þarftu: Í kökuna: 310gr sykur, 125gr lint smjör, 2 egg, 255gr hveiti, 1/2 tsk salt, 1 tsk lyftiduft, 1 tsk matarsódi, 3 msk gott kakó, 2 1/2 dl mjólk, 1 tsk vanilludropar. Í kremið: 1 egg, 340gr flórsykur, 3 msk kakó, 85gr brætt smjör, smá salt.

Svona gerirðu: Þeytið vel saman sykurinn, eggið og smjörið og blandið svo öllu hinu útí. Uppskriftin passar í eitt 26cm hringform eða litla skúffu. Bakið við 170°C í 30-40 mínútur. Stingið í miðju og tékkið á því hvort hún er tilbúin. þeytið vel flórsykurinn við eggið og smjörið. Smjörið má ekki vera heitt. blandið svo llu hinu saman við og hrærið vel. Setjið á kökuna þegar hún hefur kólnað.

Að lokum: Þessa guðdómlega kaka sló í gegn í Desember 2010-bumbu spjallgrúbbunni sem ég er í en uppskrftin er fengin frá einni af þeim dásamlegu konum sem eru þar með mér. Ég hef bakað kökuna tvisvar Í fyrsta skiptið í svona hringformi og skreytti með súkkulaðidropum, (tilefnið var ekkert.. ég bara varð að smakka því svo mikið bar búið að ræða þessa köku á spjallinu hehe ) og í annað skiptið þá gerði ég tvöfalda uppskrift og bakaði í stórri ofnskúffu fyrir tveggja ára afmælið hans Hrafns Tjörva. Úr varð alveg glæsileg afmæliskaka sem bæði börnin og fullorðnu afmælisgestirnir gæddu sér á með góðri lyst. Unaðslegt að hafa með þessari köku rjóma, unaðslegt alveg hreint! Mæli með henni, afur og aftur og aftur..

Hrafn Tjörvi blæs á tveggja ára afmæliskökuna sína

Heilsubitakökur

Þetta þarftu: 240gr smjör mjúkt, 200gr hrásykur, 2 stór egg, 140gr hnetusmjör helst ósætt, 3/4 dl mjólk, 100gr haframjöl, 50gr hveitiklíð, 60gr sesamfræ, 60gr sólblómafræ, 100gr salthnetur, 100gr pecanhnetur, 100gr valhnetur, 200gr rúsínur, 1/4 tsk engifer, 1 msk kanill, 3/4 tsk salt, 1 tsk lyftiduft, 150gr heilhveiti.

Svona gerirðu: Hrærðu vel saman smjörið og sykurinn bættu svo eggjunum saman við og hrærðu því vel saman. Svo bætirðu í hnetusmjörinu og mjólkinni og hræri það allt saman. Að lokum hrærirðu öll þurrefnin hnetur og frædótið saman við og hræra allt vel saman. Setur kökurnar plötu með bökunarpappír með tveimur matskeiðum (mjög klístrað deig). Á eina plötu passa 9 kökur  Hitar ofninn 180°C og bakar í 15-18 mínútur.

Svo mikið gúmmelaði

Að lokum: Þessa uppskrift má alveg útfæra að smekk hvers og eins. Fyrstu 5 atriðin eru algjör möst og má ekki breyta.Líka kryddið allt og heilhveitið. Allt sem er skáletrað, semsagt hneturnar og allt frædótið og það, má bara vera eins og hver og einn vill svo lengi sem það vigtar 770gr. Mér finnst tildæmis alveg ómissandi að hafa súkkulaði (að sjálfsögðu) og í staðinn fyrir að setja 200gr af rúsínum set ég 100 og 100 rúsínur og súkkulaði (dökkt og gott).. svo er tildæmis hægt að setja graskersfræ og allskonar öðruvísi hnetur og þurrkaða ávexti. Þetta eru rosalega saðsamar kökur og ein kaka er næstum heil máltíð.. að minnsta kosti gott ámillimála nart. Mjög sniðugt að frysta eina og eina og grípa svo með sér í veskið 🙂