Category Archives: súpur

Kjúklinganúðlusúpa

 

kjúklinganúðlusúpa þessi er hreinasta dásemd!

 

Þetta þarftu: 200gr kjúklingabringur (svona tvær bringur), 200gr sveppir, 1 blaðlaukur, 2 dl steinselja, 1lítri vatn, 2-3 kjúklingateningar, 125gr eggjanúðlur, 2-4 egg (semsagt hálft eða heilt egg á mann), 2msk sojasósa.

Svona gerirðu: Skerið bringurnar í þunna strimla, skerið sveppina og blaðlaukinn í sneiðar og saxið steinseljuna. Setjið vatn og teningana í stóran pott og sjóðið saman. Bætið núðlum og kjúklingi útí og sjóðið í 2mín. Setjið síðan grænmetið útí og sjóðið áfram í 3-4 mínútur. Kryddið með soja. Sjóðið eggin þanig að þau verði svona hálf-harðsoðin, skerið þau svo til helminga langsum og setjið einn helming í hverja skál.

Að lokum: Þetta er æðisleg súpa. Mjög einföld og fljótleg og hráefnið frekar ódýrt. Það er auðvitað hægt að nota ódýrari part af kjúllanum en bringurna, en þær eru samt alltaf bestar. Pabbi eldar þessa súpu oft en uppskriftin er upprunalega úr pastabókinni hans. Það er eiginlega nauðsynlegt að borða með þessu nýbakað brauð og drekka gott hvítvín með. Þá er þetta hin fullkomna máltíð. Ég fæ eiginlega bara heimþrá á Hraunhól 8 þegar ég hugsa um þessa súpu.. HB

Gentse Waterzooi

Þetta þarftu: 3 blaðlaukar, 3 sellery stilkar, 1 góður poki af gulrótum, 1 kúrbítur, 1 góður laukur, 3-4 hvítlauksgeirar, 3-4 kjúllabringur, 1 búnt kerfill, 1 búnt fersk steinselja, 1 pottur rjómi, salt og pipar, 2 kjúklingateningar, lárviðarlauf

Svona gerirðu: Byrjað er á því að sjúða kjúllann í potti með smá piparkornum, lárviðarlaufi og ólífuolíu. Þegar hann er tilbúinn þá skuluð þið hella vatninu af og láta kjúllann kólna. Saxið svo allt grænmetið. Síðan er málið að ná sér í stóran og góðan pott og svissa grænmetið allt saman (samt ekki steinseljuna og kerfilinn) þannig að það verði mjúkt. Laukurinn/blaðlaukurinn má allsekki verða brúnn þannig að keep the heat down. Þegar alltsaman er orðið vel mjúkt og gott er ca 1,5 lítra af vatni hellt útí pottinn, hendið líka teningunum útí og látið suðuna koma upp og svo malla í nokkrar mínútur. Hversu lengi fer bara eftir því hvað þið viljið hafa gulræturnar krönsí. Síðan er kjúllanum bætt út í og smakkað til með salti og pipar (fullt af pipar). Svo rétt áður en ykkur langar að borða gúmmelaðið þá skellið þið steinseljunni og kerflinum útí ásamt rjómanum. Passið bara að sjóða ekki rjómann.

Toggi snillingur

Að lokum: Þessi uppskrift er frá snillingnum honum Þorgrími bróður mínum. þetta er sko belgískur matur eins og hann er eldaður í Gent þar sem snillingurinn býr í góðu yfirlæti. Ég smakkaði þetta fyrst í sumar þegar hann eldaði þetta handa okkur á Hraunhólnum. Þetta sló heldur betur í gegn hjá mér og Pésa og við eldum þetta oft. Það er líka hægt að nota heilan kjúkling í staðinn fyrir bringur. það er soldið meira moj því þá þarf að taka af honum skinnið og beinin þegar maður er búinn að sjóða hann. Mér finnst líka best að skera allt grænmetið í svona mjóar ræmur og tæta kjúklinginn niður eftir suðuna í staðinn fyrir að skera hann í bita.. en svona er ég nú skrítin. Svo nota ég líka alltaf matraeiðslurjóma en ekki venjulegan, til að passa línurnar. Allavega þá er þetta algjörlega æðislegur matur og alveg bráðhollur og bara mega gebba ógó þroskó mongó mikil snilld! Takk fyrir mig Toggi minn :)

Fiskisúpa Miðjarðarhafsins

Girnileg súpa

Þetta þarftu: 400g fiskur, roðlaus og beinlaus, 250g hörpudiskur, 4 laukar, 3 hvítlauksrif, 400g sveppir, 2 msk olía, 3 tsk salt, 2tsk svartur pipar, 1msk karrí, 2tsk túrmerik, 1dós niðursoðnir tómatar, 1/2 lítri hvítvín (má nota kjúklingasoð), 1/2 lítri vatn, 3 lárviðarlauf, 1 dós kræklingur, 1 búnt steinselja.

Svona gerirðu: Saxið lauka og hvítlauk og skerið niður sveppi. Mýkið í olíu í 1-2 mínútur í stórum potti. Kryddið með salti, pipar, karrí og túrmeriki. Setjið tómata, hvítvín (eða soð), vatn og lárviðarlauf út í pottinn. Látið suðu koma upp og sjóðið í 3-4 mín. Skerið fiskinn í litla bita og setjið í súpuna ásamt frosnum hörpudiski. Sjóðið í 3-4 mínútur. Bætið kræklingnum útí og hitið að suðu. Saxið steinseljuna og stráið yir súpuna.

Pési bíður spenntur eftir að fá að smakka

Að lokum: Þó þetta heiti fiskisúpa er þetta sjúklega góð súpa. Ég hef eiginlega alltaf lúðu í henni og sleppi líka kræklingnum því mér finnst hann vondur og set yfirleitt humar í staðinn.. að sjálfsögðu! En það er alveg hægt að setja allskonar fiska í þetta.. að sjálfsögðu ber maður nýbakað brauð fram með svona súpu og mæli ég með massa brauði kollusætu!! Ég fékk þessa uppskrift upphaflega úr bókinni Af bestu lyst 2 og get sko sagt ykkur að þessi súpa er ógeðslega holl. Það stendur sko í bókinni! HB