Massabrauð Kollu sætu

Þetta þarftu: Fimmsinnum 250ml hveiti, 5dl vatn (volgt), eitt gerbréf, góðan slump af olíu, smá salt og 1msk sykur.

Svona gerirðu: Setjið volga vatnið í skál og setjið gerið út í það ásamt sykrinum og saltinu. Þetta er hrært saman þangað til gerið leysist upp. Svo skal hveitinu hrært út í smám saman. Takið svo deigið úr skálinni og hnoðið það þangað til það verður æðislegt. Þvínæst er það látið hefast í amk 45mín. Þá mótið þið tvö brauð úr deiginu og látið hefast aftur í svona hálftíma. Svo er þetta bakað við 180°C-200°C þangað til það fer að dekkjast.

Að lokum: Þetta er alveg massa brauð.. og þau eru tvö.. brauðin, ha? súkkulöðin?? nei, tvíburarnir! hahahah.. allavega.. Ég baka þetta brauð eiginlega alltaf þegar ég baka brauð með mat (kjúklingasúpunni, pestókjúlingnum og allskonar). Einusinni bakaði ég þetta líka öðruvísi en þá setti ég sólþurrkaða tómata í deigið og úr varð svo gott tómatbrauð að ein í saumaklúbbnum hélt að það væri frá Jóa Fel.. iss nei, þetta er sko frá Kollu sætu !!

Franski lambakjötspottrétturinn

Þetta þarftu: 1 kg lambaframhryggjarsneiðar, helst nokkuð þykkar, nýmalaður pipar, salt, 1 msk olía, 25 gr smjör, 100 gr beikon, 1 laukur, saxaður smátt, 1-2 hvítlauksgeirar, 3-4 gulrætur, 1 rósmaríngrein, 1 dós (250 ml) tómatmauk (puré), 250 ml rauðvín, má vera óáfengt, vatn eftir þörfum, 500 gr kartöflur

Svona gerirðu: Ofninn hitaður í 160°C. Hver framhryggjarsneið skorin í 2-3 bita og þeir kryddaðir með pipar og salti. Olía og smjör hitað á pönnu og kjötið brúnað vel. Tekið af pönnunni og sett í stórt, eldfast mót. Beikonið skorið í bita, sett á pönnuna og steikt í 2-3 mínútur. Þá er lauk, hvítlauk, gulrótum og rósmaríni bætt á pönnuna og það látið krauma áfram í nokkrar mínútur. Tómatmauki og rauðvíni hrært saman við og síðan er öllu saman hellt yfir kjötið, þétt lok lagt yfir fatið eða álpappír breiddur vel yfir, og það sett í ofninn. Látið malla í um eina og hálfa klukkustund. Svolitlu vatni bætt við ef þarf en vökvinn á aldrei að fljóta yfir kjötið og sósan á að þykkna af sjálfu sér.  Kartöflurnar afhýddar og skornar í bita. Fatið tekið úr ofninum, rósmaríngreinin veidd upp úr, kartöflunum dreift jafnt á milli kjötbitanna, fatið sett aftur í ofninn og látið malla í um 30-40 mín í viðbót, eða þar til kartöflurnar eru meyrar.

Að lokum: Þetta er algjörlega geeeeðveikur réttur, hefur ósjaldan verið eldaður og er hreinlega guðdómlegur með góðu rauðvíni, góðu brauði, við kertaljós á köldu vetrarkvöldi.