Kókosbolluterta

Þetta þarftu: Botnar: 4 egg, 125gr sykur, 1 tsk lyftiduft, 2 msk hveiti, 100g suðusúkkulaði. Fylling: 21/2 dl rjómi, 4 kókosbollur. Ofaná: 100gr suðusúkkulaði, 1 msk matarolía, 2 dl þeyttur rjómi.

Svona gerirðu: Botn: Þeytið egg og sykur saman, brytjið súkkulaði og blandið því í ásamt hveiti og lyftidufti. Smyrjið tvö tertuform mjög mjög mjög vel helið deiginu í. Bakist í 20mín við 200°C. Látið botnana kólna vel áður en þið takið þá úr, það getur verið soldið erfitt. Fylling: Skerið kókosbollur í þrennt og raðið á annan botninn. Þeytið rjómann og smyrjið ofaná kókosbollurnar. Setjið svo hinn helminginn yfir. Ofaná: Bræðið saman súkkulaði og olíu og smyrjið ofan á tertuna. Látið þetta harðna og notið svo rjómasprautuna ykkar til að skreyta hliðarnar með rjóma.

Að lokum: Þetta er alveg svakaleg bomba. Ég bakaði hana fyrst þegar ég þurfti að baka tertu fyrir skírnina hennar Sunnu Kristínar, litlu frænku minnar, og hún sló sko í gegn! Það var í fyrsta skipti sem ég bakaði tertu og ég keypti mér meira að segja rjómasprautu til að fullkomna þetta. Það er best að láta tertuna standa aðeins í ísskápnum áður en hún er borðuð. Þá er hún algjör æði.. HB

Pönnukökuveisla

Á laugardaginn bökuðum við pönnukökur í kaffinu. Hann Hrafn Tjörvi gjörsamlega elllskar pönnukökur og þessvegna bökum við þær oft! Hann er meira að segja farinn að læra uppskriftina! Hann er voðalega duglegur að hjálpa mömmu sinni að setja allt útí skálina og sér eiginlega um allt nema mjólkina eggið og smjörið. Duglegi bakaradrengurinn!

Hérna eru nokkrar myndir af pönnukökuveislunni og uppskriftin þar á eftir

ummmmmm delissíus!
Kolbrún Lilja fékk að smakka eina með smjöri
Bakarinn ánægður með afraksturinn
Bakaradengurinn duglegi

Þetta þarftu: 2 1/2 dl hveiti, 1/4 tsk salt, 1 tsk vanillusykur, 1/2 tsk lyftiduft, 1/2 tsk matarsódi, 2 egg, 3-4 dl mjólk, 25 gr smjör.

Svona gerirðu: Bræðið smjörið á pönnunni.  Þeytið saman eggin og vanillusykurinn og blandið svo mjólkinni saman við og smjörinu. Að lokum er þurra dótið sett útí smám saman á meðan hrært er svo ekki komi kekkir. Svo eru pönnukökurnar steiktar á pönnukökupönnu, helst einhverri vel notaðri með góðri sál 🙂

Að lokum: Mér finnst best að bræða smjörið á pönnunni en samt ekki við of mikinn hita svo það verði ekki mjög heitt. Svo hita ég alltaf mjólkina aðeins í öbbanum svo að smjörið storkni ekki í mjólkinni þegar ég blanda því saman. Svo bara þeyta massa vel svo þetta verði nú ekki kekkjótt. Ég helli svo alltaf líka umframdeigi af pönnunni aftur útí deigskálina svo pönnsurnar verði þunnar og góðar. Veit ekki hvað þetta eru margar pönnsur, en þetta er akkúrat passlegur skammtur fyrir okkur þrjú.. þarf líklega að bæta í þegar Kolbrún Lilja kemst á bragðið….