Reykjavíkurmaraþon 2011

Jæja, þá er ég búin aðskrá mig á hlaupastyrkur.is svo að hægt sé að heita á mig á laugardaginn eftir viku þegar ég ætla að hlaupa* 10km ásamt systkinum mínum og einhverjum afsprengjum þeirra.  Ef þið viljið heita á mig (sem ég efast ekki um að þið aleg iðið í skinninu að gera) þá skulið þið smella á linkinn fyrir neðan.

Við systkinin ætlum að hlaupa til styrktar Göngum saman. Rannsóknir á brjóstakrabbameini. Ástæðan fyrir því er sú að hún elsku mamma okkar stendur nú í hetjulegri baráttu við þennan alltof algenga sjúkdóm.

Endilega tékkið á þessu: http://hlaupastyrkur.is/hlaupid/keppandi?cid=2513 .. þetta verður rússssst!!!

*hlaupa = skokka, jafnvel skokka hægt, jafnvel skokka mjööög mjööööög hægt og jafnvel svo hægt að það borga sig jafnvel fyrir mig að skipta yfir í labb (sem ég jafnvel myndi þá gera) til þess að komast einhverntíma á leiðarenda, jafnvel.. en á leiðarenda kemst ég!!

Jógúrtbollurnar hennar tengdamömmu

Svo gómsætar!

Um helgina síðustu þá vorum við Kolla systir í þvílíku bökunarstuði og á laugardeginum ákváðum að baka eitthvað sem er bæði ótrúlega gott og auðvelt að grípa í þegar mann langar í ‘eitthvað’. Kolla ákvað að baka kanilsnúða og ég ákvað að baka þessar muffins. Þær áttu að vera með kvöldkaffinu á laugardeginum og svo til að narta í næstu daga. Það er skemmst frá því að segja að þetta kláraðist næstum allt á laugardagskvöldinu!

Þetta þarftu: 3 egg, 400gr sykur, 250gr smjörlíki lint, 600gr hveiti, 1/2 tsk natron, 1/2 tsk salt, 1 dós kaffijógúrt, 2msk heitt vatn, 2 tappar vanilludropar, 1 poki spænir

Svona gerirðu: Öllur draslinu blandað saman og sett í svona muffinsform. Bakað við 190°C þartil bollurnar eru orðnar ljósbrúnar að ofan.

Að lokum: Þetta er uppskrift frá tengdamömmu minni henni Konný. Hún bakaði þetta oft þegar Pétur og systkini hans voru yngri. Pétri finnst þetta bara það besta í heimi! Uppskriftin fyllir alveg stóra macintosh dollu og það er ekkert betra en að stelast í hana. Við bökum þetta stundum við sérstök tækifæri og klárast þá skammturinn ansi fljótt!!  Ég hef sett svona síríus konsum súkkulaðibita í staðinn fyrir spæni stundum og það er líka alveg rosalega gott. Ég prófaði í þetta skiptið að setja formin í svona sérstaka möffins ofnplöru og það var ferlega þægilegt því þá fletjast þær ekkert út og verða mjög lögulegar. Algjör skylda að drekka ískalda mjólk með!!

MEIRIHÁTTAR kanilsnúðar!

Á degi eins og þessum þegar allt er alveg MEIRIHÁTTAR! tómur ísskápur, tómt veski, bíllinn á verkstæði og allt lítur út fyrir að við missum að hinni stórkostlegu hátíð Hraunhóll 2011 núna um versló, þá er aðeins eitt í stöðunni. Maður bakar MEIRIHÁTTAR kanilsnúða!

Svo mjúkir og góðir og MEIRIHÁTTAR!!!!

Þetta þarftu:  850 g hveiti, 1 tsk sykur, 150 g smjör, 5 dl volg mjólk, 1 tsk salt, 50 g pressuger eða 5 tsk þurrger, slatti kanilsykur og auka smjör.

Svona gerirðu: Volg mjólk er sett í hrærivélaskálina ásamt geri og teskeið af sykri. Bræðið smjörið og setjið saman við. Bætið hveitinu við og hnoðið deigið. Þegar deigið er orðið draumi líkast er það látið hefast í 40-60 mínútur. Því næst er aukasmjörið brætt, deigið flatt út og smurt með smjörinu. Svo er kanilsykrinum stráð yfir, magn eftir smekk. Rúllið svo deiginu upp og skerið niður í sirka jafnþykka snúða. Skellið þessu á plötu og bakið við 200-220°C í sirka 10 mínútur.

Að lokum: Ég tek það fram að þetta er riiiiiisastór uppskrift. Þegar ég baka þetta handa okkur hérna heima þá baka ég bara hálfa uppskrift og fæ úr því 20-25 snúða. Ef öll uppskriftin er bökuð í einu er gott að skipta deiginu í tvennt áður en það er flatt út og gera þetta í tveimur hollum. Langbesti volgir en þeir eru ennþá MEIRIHÁTTAR daginn eftir.

Uppfært: Bökuðum þá aftur um daginn þegar Brynjar, Harpa og Elías Máni komu í heimsókn. Ekki skemmdi að setja á þá svolítið glassúr, bleikt með vanillubrafgði og súkkulaðiglassúr!

sjúklega góðir og gasalega lekkerir með glassúri !

 

Uppskriftavesen….

Ég er að henda öllum uppskriftunum mínum hingað inn. Ætla bara að setja þær inn sem færslur hér og þar og flokka þær í catagories. Þannig verður held ég ekkert erfitt að finna þær… nenni ekki að eiga tvo vefi. Er alltaf að gleyma passinu á uppskriftavefinn. sjííííííí… ég veit, gebba vesen á mér og ekkert svakalega gaman að copy/paste-a .. afhverju er ég alltaf með þetta vesen?

Appelsínukaka

Himnesk alveg hreint..

Bökuðum þessa Appelsínuköku í dag. Langaði að gefa honum Hrafni mínum eitthvað gott í drekkutímanum og þá er þessi kaka einmitt svo upplögð því maður á eiginlega alltaf allt í hana! Pétur mætti svo heim úr vinnunni beint í volga kökusneið og var mjög ánægður með húsmóðurina haha 🙂

Þetta þarftu: 150gr sykur, 2 egg, 150gr smjörlíki, 150gr hveiti, 1 tsk lyfitduft, dálitla mjólk og nýkreistan appelsínusafa, flórsykur.

Svona gerirðu: Byrjaðu á því að þeyta saman sykurinn og egginn. Blandaðu svo bræddu smjörlíkinu, hveitinu og lyftiduftinu samanvið og hrærðu. Ef deigið er þykkt blandaðu þá smáveigis af mjólk við til að lina það upp eða appelsínusafa. Skelltu þessu svo í kökuform (svona kringlótt) og bakaðu við 200°C í í 30 mín. Á meðan kakan bakast þá skaltu hræra saman flórsykri og nýkreistum safa í glassúr. Þegar kakan er bökuð leyfirðu henni að kólna og tekur úr forminu. Svo er bara að glassúra!

Að lokum: Æðislega góð kaka sem mamma leyfði okkur systrum oft að baka þegar við vorum litlar. Mjög einfalt og fljótlegt að baka. Ef þið nennið ekki að kreista safa úr appelsínum er alveg hægt að nota safa úr fernu. Passa bara að hafa hann 100% og helst með aldinkjötinu. Ekta kaka til að baka þegar tilefnið er ekkert og þér langar bara í köku… HB

Hrafni Tjörva finnst appelsínukakan algjört gúmmelaði!!